136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[15:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er algjörlega greinilegt að þessi ríkisstjórn er óstarfhæf. Hún nýtir tímann í að rífast innbyrðis og hún snýr ekki bökum saman. Meira að segja ráðherrar úr öðrum stjórnarflokknum, ráðherrar úr Samfylkingunni, vilja kosningar. Svo kemur hér hæstv. menntamálaráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og klifar á því að nú eigi að láta hagsmuni flokkanna til hliðar, það eigi ekki að kjósa.

Virðulegur forseti. Það þjónar ekki hagsmunum Sjálfstæðisflokksins að kjósa núna, er það? Ég skil alveg að Sjálfstæðisflokkurinn vilji (Gripið fram í.) alls ekki kjósa. Að sjálfsögðu vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki kjósa. (Gripið fram í.) Allt fylgi er hrunið af flokknum. (Gripið fram í.)

Þessi ríkisstjórn hefur líka leynt okkur upplýsingum. Ríkisstjórnin hefur vitað í þó nokkuð langan tíma að bankarnir væru komnir út á brún hengiflugsins. Það er líklega í eitt ár sem menn hefðu getað gripið til aðgerða. Þetta varð ljóst í lok síðasta árs. Það hafa komið rauð og gul ljós til ríkisstjórnarinnar en ekkert var gert. Þessi ríkisstjórn verður að fara frá.

Ef það væri einhver töggur í henni hefði hún vaðið í nokkra hluti strax, t.d. að taka bankastjórn Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins frá, leyfa því fólki að segja af sér. Ég er ekki að fullyrða að þetta fólk hafi gert eitthvað saknæmt en þetta fólk er búið að missa trúverðugleikann. Það er búið að missa traust þjóðarinnar og það hefur ríkisstjórnin líka gert.

Í öðru lagi ætti að stöðva án tafar það verklag að fyrri eigendur fái fyrirtæki sín að nýju frá skilanefndunum — nýskúruð af skuldunum. Fjármálaeftirlitið skipaði þessar skilanefndir og það starfar á ábyrgð hæstv. viðskiptaráðherra. Það er hreint með ólíkindum að horfa upp á að fjölmiðlar 365 eru afhentir svona gömlu eigendunum. Við skulum hafa í huga að þessir fjölmiðlar höfðu fyrir stefnu sína að koma Samfylkingunni til valda og studdu hana með ráðum og dáð í síðustu kosningabaráttu og alveg til dagsins í dag. Það sjá allir sem hafa augun opin, virðulegur forseti.

Í þriðja lagi á að taka án tafar úr umferð alla þá yfirmenn í gömlu bönkunum sem létu hluta starfsmanna sinna plata fólk á kerfisbundinn hátt. Það var platað til þess að hafa peningana sína í sjóði og því var sagt að það væri jafnöruggt og að hafa þá í innlánum. Það á að draga þessa aðila til ábyrgðar strax. Það er ljóst að mjög margir hafa tapað fjármunum vegna þessa, líklega skattborgararnir mestu því að nýju bankarnir hafa verið látnir niðurgreiða tjón fjármagnseigenda. Áhöld eru um það hvort nýju bankarnir séu í raun ekki gjaldþrota vegna þessa ráðahags.

Í fjórða lagi á að rannsaka án tafar innherjaviðskipti sem áttu sér stað rétt fyrir hrun bankanna. Það blasir við að viðskipti með Landsbankann á föstudegi fyrir hrunið, þar sem aðili sem hefur aftur og aftur tengst umræðu um að vera hálfgjaldþrota kaupir bréf í Landsbankanum fyrir um 25 milljarða, eru innherjaviðskipti. Það blasir við. Af hverjum keypti þessi aðili? Af hverjum?

Það tekur yfirvöld innan við klukkutíma að komast að þessu þannig að hægt verði að gera þetta fé upptækt. Þá þarf líka, virðulegur forseti, að komast að því af hverju Kauphöllin hafði opið fyrir viðskipti við bankana í örfáar mínútur mánudaginn sem hrunadansinn byrjaði. Það voru engar forsendur til að hafa opið til þess að fara í gegn með viðskipti fyrir bankana. Þá höfðu margir aðilar meiri upplýsingar um stöðu bankakerfisins en aðrir. Þetta var óréttmætt. Af hverju var opið í nokkrar mínútur í Kauphöllinni? Hver getur svarað því?

Enginn vill svara því.

Virðulegur forseti. Hér talaði áðan hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og sagði: Hvernig gat þetta skeð? Hún fór að tala um núverandi formann Framsóknarflokksins, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Ég spyr til baka: Hvernig gat bankahrunið átt sér stað á vakt Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hæstv. utanríkisráðherra? Hvernig gat þetta átt sér stað á hennar vakt?

Hver ber ábyrgð á bankaeftirlitinu í landinu? Það er aðallega Samfylkingin, líka Sjálfstæðisflokkurinn. Hver ber ábyrgð á Seðlabankanum í þessu landi? Það eru Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Hvernig gat bankakerfið á Íslandi hrunið á vakt Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hæstv. utanríkisráðherra?

Ég vil fá svar við því.

Það er algjörlega ljóst, virðulegur forseti, að þessi ríkisstjórn er rúin trausti. Fólkið hefur talað. Fólkið talar hér úti á Austurvelli á hverjum einasta laugardegi. Það talar líka í skoðanakönnunum. Því fyrr sem þessi ríkisstjórn fer frá, því betra. Ég skora á þingheim að samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir og ég hlakka til að sjá hvernig hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir mun greiða atkvæði. Því miður er hæstv. viðskiptaráðherra ekki hér, Björgvin Sigurðsson, þannig að augu allra munu beinast að hæstv. umhverfisráðherra, og að sjálfsögðu aðallega Samfylkingunni sem hefur talað hér út og suður í hverju málinu á fætur öðru og væri kannski líklegust til að samþykkja vantraust á eigin framkvæmd mála hér inni.