136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[15:40]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Í þessu ástandi er eðlilegt að almenningur velti fyrir sér hvort núverandi ríkisstjórn beri að víkja og við kveinkum okkur ekkert undan því. Núverandi stjórnarflokkar geta ekki hlaupist undan þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir enda ætla þeir ekki að gera það. Ábyrgð er mikilvægt hugtak í stjórnmálum og okkur ber að taka það alvarlega. Umræða um kosningar er því eðlileg að mínu mati, aðstæðurnar eru breyttar, forsendur brostnar og í raun erum við að horfast í augu við nýtt Ísland. Við slíka stöðu getur verið heppilegt fyrir alla stjórnmálaflokka að endurnýja umboð sitt.

Önnur ástæða getur einnig kallað á kosningar fyrr og það eru Evrópumálin. Eftir tíu vikur mun Sjálfstæðisflokkurinn hugsanlega setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá sína og þar með mundi stefna ríkisstjórnarinnar í þeim efnum breytast. Sú afstaða mundi valda straumhvörfum í íslenskri pólitík, en áður en við getum farið inn í ESB þarf að breyta stjórnarskrá og það eitt getur kallað á kosningar fyrr en áætlað var. Þess vegna geta verið ýmsar ástæður fyrir því að kosningar verði fyrr og auðvitað getur enginn stjórnmálamaður útilokað það.

Engin þessara ástæðna kallar hins vegar á kosningar um áramótin eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir. Þessar pælingar eiga því ekkert skylt við þá vantrauststillögu á ríkisstjórnina sem hér er til umræðu. Ég hafna því þessari tillögu enda styð ég ríkisstjórnina, ríkisstjórn sem hefur gert marga góða hluti undanfarna 17 mánuði. (Gripið fram í: Sett þjóð á hausinn.) Stjórnarflokkarnir eru einnig þeir flokkar sem ég treysti best til að leiða okkur í gegnum það öldurót (Gripið fram í: Sett þjóð á hausinn.) sem nú umlykur okkur.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks skilgreinir sig sem frjálslynda umbótastjórn. Það er mikilvæg nálgun sem ég er ekki viss um að yrði fyrir hendi ef stjórnarandstöðuflokkarnir tækju við. Í því sambandi skulum við líta á hinn valkostinn í stjórnmálunum.

Hverjar eru lausnirnar sem Vinstri grænir bera á borð? Þær eru helst að vera í áframhaldandi deilum við nágrannaþjóðir okkar, segja upp EES-samningnum, taka upp norska krónu, hafna alþjóðlegri, viðurkenndri aðstoð og fleira í þeim dúr. Ekki er sá flokkur beint að opna á frekari samskipti við aðrar Evrópuþjóðir, þvert á móti ræður einangrunarhyggja þess flokks enn ríkjum og það veldur mér miklum vonbrigðum. Fólk sem krefst inngöngu Íslands í Evrópusambandið á sama tíma og það krefst þess að þessi stjórnmálaflokkur verði við stjórnvölinn þarf að hafa þetta í huga.

Lítum þá til Framsóknar, þess flokks sem er nánast búinn að vera samfleytt í ríkisstjórn í 36 ár. Er það sá kostur sem þjóðin er að kalla eftir, flokkur í sárri tilvistarkreppu sem sárlega þarf á hvíld að halda? Ég held ekki, frú forseti, en þetta eru helstu valkostirnir í íslenskri pólitík.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að stjórnarflokkarnir eru langt frá því fullkomnir og mistök hafa verið gerð. Ég get hins vegar fullyrt að fólkið innan þeirra raða hefur gert sitt allra besta og ætíð haft hagsmuni almennings sem sitt leiðarljós.

Förum aðeins yfir þær aðgerðir sem við höfum boðað. Við munum lækka dráttarvexti, fjölga greiðsluvandaúrræðum Íbúðalánasjóðs, milda innheimtuaðgerðir, fella út gildi skuldajöfnunarheimild gagnvart barnabótum og vaxtabótum, létta greiðslubyrði af verðtryggðum lánum, heimila endurgreiðslugjald á notuðum ökutækjum, frysta afborganir á erlendum lánum, takmarka stimpilgjöld og greiða barnabætur út mánaðarlega en ekki á þriggja mánaða fresti. Þá höfum við ákveðið jákvæðar breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu og námslánakerfinu og tryggt fjárhagslega aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra ríkja. Eftirlaunalögin verða afnumin og kallað verður eftir launalækkun æðstu embættismanna og stjórnmálamanna. Þá hafði sú ákvörðun verið tekin áður að hækka skattleysismörk um 20 þús. kr. á kjörtímabilinu, afnema stimpilgjöld fyrir fyrstu kaupendur, minnka eða afnema tekju- og makatengingar og þannig mætti lengi telja. Þetta er ríkisstjórn sem setur hagsmuni almennings í öndvegi.

Ég geri mér grein fyrir því að fjölmörg verkefni eru fram undan. Skipa þarf óháða rannsóknarnefnd sem þarf að gera allt málið upp, rannsaka bankana, embættismenn og stjórnmálamenn. Við þurfum að fjárfesta í menntun, sprotum, nýsköpun og þróun. Við þurfum að verja velferðarkerfið og beita öllum tiltækum leiðum til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og þann mannlega harmleik sem því fylgir. Og við munum halda áfram að setja hagsmuni almennings í öndvegi og ekki freistast til að stilla klukkuna til baka um áratugi eins og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn vill.

Frú forseti. Við vitum öll að erfiðir tímar eru fram undan hjá þjóðinni en endurreisnin er hins vegar að hefjast. Þá skiptir máli að stefnumál jafnaðarmanna, um réttlæti, jöfnuð, jafnræði, frelsi, samhjálp og sanngirni, verði leiðarljósið í uppbyggingu og endurreisn íslensks samfélags og þess vegna styð ég þessa ríkisstjórn.