136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[16:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Umræðan um vantraust á ríkisstjórnina hefur að mestu fjallað um liðna tíð, um atburði sem liðnir eru og eiga sumir hverjir rætur sínar jafnvel þó nokkuð langt aftur í tímann og inn í tímabil síðustu ríkisstjórnar. Segja mætti að sumir flutningsmanna eigi hlut að málum. En auðvitað ætti umræðan um vantraust frekar að snúast um þá hluti sem eru að gerast í dag og þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir næstu mánuði því að það er það sem skiptir máli.

Lítið hefur verið fjallað um neyðarlögin. Lítið hefur verið fjallað um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða Icesave. Aðeins tæpti síðasti ræðumaður á hag heimilanna. Lítið hefur verið fjallað um hag fyrirtækjanna eða bankanna eða samskipti við lánardrottnana, þau hafa varla verið nefnd hvað þá uppbygging atvinnulífsins fram í tímann. En einhverjir hafa að vísu nefnt að staða ríkissjóðs væri því miður mun lakari eftir þau áföll sem við höfum orðið fyrir.

Menn hafa líka fjallað um það eins og við værum hér í algjöru tómarúmi. Eins og engin þjóð væri að glíma við vandamál nema við. En staðreyndin er hins vegar sú að við erum ekki lengur í fjármálakreppu á Íslandi. Við erum ekki lengur í alþjóðlegri fjármálakreppu, við erum því miður komin inn í alþjóðlega efnahagskreppu. Hvert landið á fætur öðru sýnir nú tölur um samdrátt þar sem um er að ræða skilgreindan samdrátt og skilgreinda kreppu eins og Japan, Frakkland, Þýskaland, Spánn, Ítalía og Bandaríkin og nú síðast Singapúr.

Hvert landið á fætur öðru sækir nú um lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nú síðast Lettland. Það er ekki hægt að tala eins og við hér á landi séu þau einu sem glíma við vandamál og þar af leiðandi hljóti öll vandamálin að vera ríkisstjórninni að kenna, ríkisstjórn Íslands sem felldi Lehman-bankann í september, eða finnst okkur það vera rétta niðurstaðan? (Gripið fram í.)

Staðan er sú að uppi eru ótrúlegar væringar á fjármálamörkuðum heimsins og stærstu bankar heims hafa þurft að sækja í skjól ríkisvaldsins til þess að fá styrk og aðstoð, nú síðast næststærsti banki heims, Citigroup í Bandaríkjunum

Þróuðu ríki heimsins standa frammi fyrir því nú sem heild að í fyrsta skipti frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar er gert ráð fyrir því að samdráttur verði landsframleiðslu á ársgrundvelli. Þannig er staðan þegar við fjöllum um vantraust á ríkisstjórn Íslands.

Og um hvað höfum við fjallað? Við höfum lítið fjallað um neyðarlögin en það er kannski ekki skrýtið því að hluti flutningsmanna studdi neyðarlögin og ég þakka þeim fyrir það. Það hefur lítið verið fjallað um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því að hluti flutningsmanna lýsti yfir stuðningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það hefur lítið verið fjallað um Icesave-stöðuna og það er kannski heldur ekkert skrýtið því að hluti flutningsmanna er sammála þeirri niðurstöðu.

Það hefur aðeins verið fjallað um hag heimilanna og tillögur ríkisstjórnarinnar í því sambandi og reynt að gera lítið úr þeim. En sannleikurinn er sá að um milljarðaútgjöld og tekjutap er að ræða hjá ríkisstjórninni, ekki svo að skilja að ég sjái eftir því, því að það fer í góðan málstað. En það er fullkomlega ástæðulaust fyrir hv. þingmenn að gera lítið úr þeim aðgerðum sem verið er að fara út í og þar með að drepa umræðunni á dreif. (Gripið fram í.)

Rekstur fyrirtækjanna, hagur fyrirtækjanna, er það sem nú er sérstaklega verið að vinna að og undirbúa. Skiptir það verulega miklu máli, líka fyrir fjölskyldurnar því að hagur fyrirtækjanna og hagur fjölskyldnanna eru algjörlega samtengdir. Þar skiptir staða bankanna verulega miklu máli. Staða þeirra í dag eftir neyðarlögin, að þeir skuli yfirleitt vera starfandi, skiptir miklu máli og hvað þeir geta gert í framtíðinni til þess að hjálpa fjölskyldum og heimilum.

Það hefur mikið verið fjallað um að verið sé að afskrifa þar skuldir, sólunda verðmætum og afhenda fyrrum eigendum fyrirtækin aftur til baka á hrakvirði. Það stenst ekki skoðun. Afskriftir í bankanum fara nú eftir þeim vinnureglum sem bankaráðin setja um slíkt. Í dag eiga allir flokkar á Alþingi fulltrúa í öllum bankaráðum. Þeir eiga því að hafa fullkomna möguleika til þess að meta þá stöðu sem þar er og hvað þar er verð að gera.

Leitast er við að gæta jafnræðis og sanngirni í öllum málum sem þar eru uppi á borði og enginn getur gengið frá skuldum án þess að greiða þær eða haldið eftir eignum sem þar voru á móti. Það er afar mikilvægt að það komi fram klárt og skýrt að hvergi er verið að mismuna einstaklingum og láta menn fá eignir fyrir ekki neitt.

Samskipti við lánardrottna hefur lítið borið á góma. Þau eru afar mikilvæg en á þeim byggir framtíð bankakerfisins því að það er langt í land með að okkar eiginn sparnaður dugi til þess að fjármagna allar þær framkvæmdir og viðskipti sem fara fram.

Eitt af því sem lánardrottnar hafa mestar áhyggjur af er að hér verði upplausn, hér verði ekki unnið að þeim málum sem vinna þarf að á næstu mánuðum til þess að hægt sé að gera sem mest verðmæti úr þeim eignum sem þó eru enn þá í bönkunum. Það er atriði sem ég held að hv. flutningsmönnum hafi sést yfir.

Staða ríkissjóðs er vissulega ekki björguleg nú þegar þessi holskefla skellur á okkur en ef vel verður haldið á spilunum ættu eignir gömlu bankanna að koma verulega mikið á móti þeim skuldbindingum sem Icesave mun hugsanlega leggja á okkur. Og ef vel verður að málum staðið við uppbyggingu nýju bankanna ætti ríkissjóður að geta dregið sig tiltölulega fljótt út úr þeim rekstri þannig að hann verði ekki með bundna fjármuni þar. Gangi það hvort tveggja eftir þýðir það að færri breytingar þarf að gera á útgjöldum og tekjum ríkissjóðs á næstu missirum. Þannig ættum við að geta varið stöðu okkar, heimilanna og fyrirtækjanna betur en annars væri.

Ég spyr því: Ef við hugum að stöðu ríkissjóðs áður en fall bankakerfisins varð, hver var hún þá? Þá var ríkissjóður skuldlaus og það gerir okkur auðvitað betur í stakk búin að takast á við þá erfiðleika sem dynja hér yfir. Hverjum er þá betur treystandi til þess að vinna okkur aftur til baka í þá stöðu en þeim sem á undanförnum árum greiddu niður skuldirnar? (VS: Hverjir greiddu niður?)

Við skulum gæta að því (Gripið fram í.) að það var góðæri í öðrum löndum en á Íslandi. Það gekk vel í öðrum löndum. En það var ekki alls staðar sem menn notuðu þær tekjur sem þeir fengu í góðærinu til þess að greiða niður skuldirnar.

Frú forseti. Þegar við hugum að tillögu hv. málsflytjenda og reynum að lesa hana eins og ég tel að hv. flutningsmenn hafi ætlað að hún yrði skilin, þ.e. að þing í hinum gamla skilningi verði rofið 31. desember og að kosningar fari þá fram einum og hálfum mánuði síðar — þótt tillagan hugsanlega yrði samþykkt í dag, hvað sjáum við þá fyrir okkur næstu mánuði? Jú, við sjáum fyrir okkur ríkisstjórn sem væri umboðslaus fram að kosningum, hver svo sem hún væri. Síðan tæki það væntanlega einhvern tíma að mynda ríkisstjórn þar á eftir.

Við sjáum fyrir okkur þriggja til fjögurra mánaða tímabil þar sem mönnum yrði lítið úr verki, ekki vegna þess að menn vilja ekki vinna, ekki vegna þess að starfsstjórnir hafi ekki stjórnarfarslegt umboð heldur vegna þess að þar væri ekki um raunverulegt pólitískt umboð að ræða. Stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir allir væru auk þess uppteknir í kosningabaráttu. Mér leiðist ekki kosningabarátta, síður en svo. En ég held að eins og staðan er í dag væri tíma okkar betur varið í að takast á við erfiðleikana, undirbúa okkur undir framtíðina, byggja samfélag okkar upp á nýtt og ná aftur þeirri stöðu sem við höfðum fyrir fall bankanna. Það er verkefnið sem fram undan er og það er nægur tími til þess að vinna það á yfirstandandi kjörtímabili.