136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[16:39]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (frh.):

Frú forseti. Það var eins og við manninn mælt að þegar ég minntist á hina fornu byltingarhetju Leon Trotskí spruttu upp byltingarsinnar hér á pöllunum. Ég verð að segja þessu unga fólki á pöllunum að ég hef sjálfur gert þetta. Fyrsta ræðan sem ég flutti í þessum sal var flutt til að mótmæla lánafrumvarpi Framsóknarflokksins og ræðan var flutt af þaðan sem þið standið og ég var færður í vörslu yfirvalda á eftir.

Frú forseti. Ég var að segja að í máli stjórnarandstöðunnar sér varla til sólar í allan dag. Ég er þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að tala um það hve erfið staðan er. Fólk er kvíðið og fólk er hrætt, það sér ekki fram úr vandamálum dagsins. Við megum samt ekki ræna það von um betri framtíð. Af hverju ekki? Vegna þess að það liggur fyrir að fúndamentin öll í íslensku samfélagi eru svo sterk. Við eigum útflutningsatvinnuvegi sem hafa sjaldan haft jafnsterk og mikil sóknarfæri og einmitt núna.

Ég nefni t.d. sjávarútveginn sem hæstv. sjávarútvegsráðherra reifaði hér áðan. Þar eru öll teikn frekar jákvæð. Einmitt vegna verndarstefnu ríkisstjórnarinnar blasir nú við að þorskurinn er á uppleið, tvö síðustu togararöll benda til þess. Ég vona að hæstv. sjávarútvegsráðherra sjái sér fært að úthluta aukakvóta vegna þess. Makríllinn er skyndilega orðinn sterk tegund hjá okkur. Báðir síldarstofnarnir eru á uppleið og Hafró hefur bent á að árgangar ungviðis loðnunnar eru miklu öflugri en oft áður.

Við eigum ríkar orkulindir sem við eigum að sjálfsögðu að halda áfram að nýta. Ég hef enga fordóma gegn því að nýta hluta af orkunni til hefðbundinnar stóriðju. Það vill svo til að það er frost í því núna vegna þess að lánalínur eru frosnar. En sem betur fer er það líka þannig að ýmiss konar hátæknivædd stóriðja horfir til Íslands. Sem ég tala eiga íslensk stjórnvöld í viðræðum við þrjú mismunandi fyrirtæki um möguleika á því að koma til Íslands með mannmargar starfsstöðvar. Auðvitað er það allt saman fugl í skógi og ekki veit ég hverjar lyktir verða, frú forseti, en vonin er fyrir hendi.

Ferðaþjónustan hefur aldrei verið öflugri en núna. Ríkisstjórnin mun um mitt næsta sumar verða búin að setja að nýju fjármagn í hana til að styrkja undirstöður hennar, einhvers staðar á bilinu 700–900 millj. kr. Sprotafyrirtækin hafa aldrei búið við umhverfi eins og þau búa við núna. Ríkisstjórnin hefur verið önnum kafin við að taka góðar hugmyndir og breyta þeim í veruleika. Við erum að setja upp frumkvöðlasetur fyrir kvikmyndafólk, fyrir arkitekta, fyrir fólk sem tapað hefur vinnunni í fjármálalífinu. Við erum að setja upp fjórar mismunandi markáætlanir. Stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum er skýr þó að hún hafi farið fram hjá þeim ágætu þingmönnum sem eru hér í stjórnarandstöðu. (Gripið fram í.)

Mér þótti það vogað af hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að koma hér og tala um að sundurþykkja væri í stjórnarliðinu. Hvað hafa þær þingflokkssystur verið að dunda sér við í vetur, hún og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir? Jú, þær hafa verið að pússa og fægja hið margfræga hnífasett í Framsóknarflokknum og skildu það eftir í bakinu á grandvörum og góðum þingmanni sem þær hröktu úr þessum sölum, fyrst úr stóli formanns Framsóknar og síðan beint af þingi.

Það sem Framsóknarflokkurinn hefur uppskorið á þessum vetri er sundurþykkja og innbyrðisátök, hann er búinn að rýja sjálfan sig fylgi. Mér þótti það hraustlega mælt af hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að koma hér og ráðast á formann Samfylkingarinnar vegna bankahrunsins. Rifjum það upp, hver var bankamálaráðherra í sjö ár, frá 1999–2006? Hver var bankamálaráðherra þegar ritað var undir heimild vegna Icesave-reikninganna í London? Hvaða flokkur átti bankamálaráðherrann (Gripið fram í.) þegar lögin voru samþykkt sem allt bankaveldið hvíldi á? Það var hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. (VS: Þetta er ómerkilegt.)

Nú kemur hv. þingmaður og segir að þetta sé ómerkilegt. Ég skal fúslega viðurkenna að þetta er ekki mjög málefnalegt hjá mér en ég tala svona til þess að sýna hv. þingmanni inn í þann sama heim og hún skók hér að okkur áðan. Ef það er einhver þingmaður í þessum sölum sem ætti ekki að vera með siðferðilegt yfirlæti gagnvart formanni Samfylkingarinnar er það hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur.