136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[16:44]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er í rauninni átakanlegt að standa hér og ræða vantrauststillögu frá stjórnarandstöðu sem hefur hvorki úrræði né lausnir og vantrauststillögu frá formanni Framsóknarflokksins og fyrrverandi hæstv. bankamálaráðherra sem var með bankamálin á sinni könnu, og flokkur hans, í á annan áratug — vantraust frá þeim sem báru ábyrgð á og höfðu forustu um þær aðgerðir og lagabreytingar sem eru án efa ein af ástæðunum fyrir því að efnahagsástandið er í dag eins og það er. Telja framsóknarmenn að þeir hafi efni á því að bera fram vantraust á þá aðila sem leggja nótt við dag til að bjarga almenningi og þjóðinni úr þeim vanda sem þeir ásamt öðrum bera ábyrgð á frá valdatíma sínum? Vantraust á þá sem eru að axla ábyrgð og eru í björgunarleiðangri til að minnka skaðann?

Krafa um kosningar nú er algert ábyrgðarleysi í miðjum björgunarleiðangri. Kosningar og kosningabarátta tekur tíma og orku frá brýnni verkefnum en við höfum staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum. Ég hef marga kosningabaráttuna háð og veigra mér ekki við að taka slíkan slag en nú á þessum tímum er það óðs manns æði og gerir engum gagn og allra síst almenningi og afkomu heimilanna í landinu. Mikilvægast nú er að standa vörð um velferðarkerfið.

Nú þegar hefur þessi ríkisstjórn náð meiri árangri í velferð og jöfnuði en flestar fyrri ríkisstjórnir sem ríktu í góðærinu. Stjórnarsáttmálinn er velferðarsáttmáli og stór hluti hans er kominn í framkvæmd og þar ber hæst velferð aldraðra og barna. Ég nefni verulega bætta stöðu lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja. Ég nefni afnám tekjutengingar við tekjur maka, minni tekjutengingar í almannatryggingunum, einfaldara kerfi, hækkuð frítekjumörk hjá öldruðum, lækkuð skerðingarhlutföll, aukna og bætta þjónustu við hjúkrunarsjúklinga og verulega fjölgun hjúkrunarrýma svo að eitthvað sé nefnt. Um þennan árangur verðum við að standa vörð.

Samþykkt hefur verið aðgerðaáætlun í málefnum barna. Þar eru margar umbætur þegar komnar fram og aðrar í farvatninu. Ég nefni verulega hækkaða greiðslu til foreldra langveikra barna og aukna þjónustu við börn með geðraskanir og þroskafrávik, aðgerðir til að minnka bið eftir þjónustu hjá fjölbreyttum hópi barna og margt fleira. Þetta verðum við allt saman að verja. Það er aldrei mikilvægara en á tímum sem þessum.

Ég skil vel reiði fólks og mótmæli og ég viðurkenni það að mér er oft svipað innan brjósts. Það er eðlilegt að almenningur láti tilfinningar sínar í ljós en látum ekki reiðina hlaupa með okkur í gönur. Nú er mikilvægast að lágmarka skaðann og ríkisstjórnin er að því með margþættum aðgerðum í þágu heimilanna. Vil ég nefna sérstaklega barnabætur, vaxtabætur, lengingu lána, greiðsluaðlögun, aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi, greiðslujöfnun og mildari innheimtuaðgerðir, heimild til frystingar lána og svo má lengi upp telja. Það er ekki gæfulegt ef þessi vinna fer í bið á meðan menn ætla að taka sér tíma til að fara í kosningabaráttu.

Eina úrræði Vinstri grænna, Framsóknar og Frjálslyndra til að bæta stöðuna í þjóðfélaginu er að nú eigi að snúa sér að öðru en björgunarstörfum og taka hlé á aðgerðum á meðan farið er í kosningabaráttu. Guð hjálpi okkur. Við höfum annað við tímann að gera en það. Við verðum að standa keik og tryggja að við uppfyllum skilyrði þeirra sem eru að lána okkur fé til að komast út úr vandanum ella gæti vandi okkar orðið enn meiri. Til þeirra verka nýtur ríkisstjórnin trausts og stuðnings hér á Alþingi.