136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[16:49]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu stjórnarandstöðunnar um vantraust á ríkisstjórnina og fleira. Það hefur verið mjög merkilegt að fylgjast með talsmönnum stjórnarinnar í dag þar sem hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa öll talað um þessa tillögu með ákveðnum hætti, nánast eins og um hafi verið að ræða vel æfðan leikkór sem komi hér fram og flytji mál sitt af eindrægni. Það er þá í fyrsta skipti í langa hríð sem ríkisstjórnin sýnir þvílíka eindrægni og þvílíka samstöðu.

En hvað hefur stjórnin sagt um þessa tillögu? Í fyrsta lagi fordæmt að fram skuli sett tillaga um vantraust á ríkisstjórnina. Í öðru lagi sagt: Þessi tillaga er röng, hún er tóm vitleysa. Í þriðja lagi hafa þessir hv. þingmenn sem ég nefndi og fleiri hneykslast á því að tillagan væri sett fram. Í fjórða lagi hafa þeir ítrekað að nú loksins væri full samstaða í stjórnarliðinu um að standa að bráðum björgunaraðgerðum. Ítrekað er sagt hér: Nú er ekki tími til að fara í kosningar. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði: Það á ekki að vera kosningabarátta á aðventunni. Það er enginn að tala um það. Það er einhver meiri háttar misskilningur sem er í gangi hjá talsmönnum ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar.

Við skulum athuga hvað hér er um að ræða. Í 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“ Hvað þýðir það? Það er þingið sem ræður því ef það verður að þola ríkisstjórnina og það er þessi þingræðislegi réttur sem við í stjórnarandstöðunni erum að nýta okkur með því að bera fram þá tillögu sem hér er til umræðu. Það er ekki flóknara en það. Við erum að nýta okkur lýðræðislega möguleika okkar í þingræðisríki.

Í öðru lagi varðandi að verið sé að vega að lýðræðislegum stoðum með því að hafa þennan hátt á. Það er þvert á móti. Það er ein af grunnstoðum lýðræðis þingbundins ríkis að stjórnarandstaða geti komið fram með vantrauststillögu eins og verið er að gera hér. Ummælin í þingsályktunartillögunni eru öll í samræmi við ákvæði stjórnskipunarlaga og stjórnarskrárinnar hvað þetta varðar. Allar hugmyndir og sjónarmið varðandi fordæmingu, vitleysu eða að þetta sé hneykslanlegt eru í raun andstaða við eðlilega lýðræðislega umræðu og umfjöllun. Það er verið að vega að þingræði og þingræðissjónarmiðum með því að halda svona firrum fram — ríkisstjórnin líður hugsanlega fyrir það í dag að hafa ekki menn sem hafa víðtækan lagaskilning og það gæti verið að menn mundu nálgast þessa hluti öðruvísi ef öðruvísi væri farið. En þetta er eðlilegur lýðræðislegur réttur og verið er að halda fram eðlilegum lýðræðislegum kröfum.

Þvert á við það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði, að nú væri ekki tími til að fara í kosningabaráttu, er kominn tími til að fara í kosningabaráttu. Sú aðstaða er uppi í þjóðfélaginu að það hefur aldrei verið brýnna en nú að þingmenn færu út, að stjórnmálamenn færu út, og gerðu þjóðinni grein fyrir því hvað þeir vilja, hvert þeir vilja stefna og hvaða lausnir þeir hafa á vandamálum. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar hefst á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar endurspeglar sögulegt samstarf tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins. Þessir flokkar hafa einsett sér að mynda frjálslynda umbótastjórn um kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu og bættan hag heimilanna og aukna samkeppnishæfni atvinnulífsins.“

Ef það fólk sem samdi þennan stjórnarsáttmála kæmi að þessu núna og horfði yfir sviðið þá mundi það segja: Hver sú ríkisstjórn sem hefði eyðilagt það góðæri og þá möguleika sem voru fyrir hendi þegar lagt var af stað ætti tvímælalaust að segja af sér. Ríkisstjórnin gat ekki stjórnað í góðærinu og þá er sagt: Það má ekki trufla okkur í miðjum björgunaraðgerðunum. Hvenær eru miðjar björgunaraðgerðir og hvenær lýkur björgunaraðgerðum? Í raun lít ég þannig á, virðulegi forseti, að verði þessi tillaga felld feli það í sér þá yfirlýsingu af hálfu stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar að þeir ætli að sitja út kjörtímabilið og það er óásættanlegt fyrir íslenska þjóð.