136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[17:20]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Frá því að efnahagskreppan skall yfir hef ég ekki séð neitt það koma fram hjá stjórnarandstöðunni sem máli skiptir sem tryggt hefði betri úrlausnir fyrir hag heimilanna og fyrirtækjanna í nútíð og framtíð en fram hefur komið hjá ríkisstjórninni. Aukinheldur eru tveir af þremur stjórnarandstöðuflokkunum haltrandi vegna innbyrðis sundurlyndis og ekki líklegir til stórra verka.

Þjóðin þarf ekki á lausnum að halda sem færa okkur til fortíðar og einangrunar frá alþjóðasamfélaginu sem er helsta hugmynd Vinstri grænna. Það er líka í besta falli broslegt að Framsóknarflokkurinn sem var við stjórnvölinn þegar bankarnir voru einkavæddir og stýrði viðskiptaráðuneytinu í gegnum tíð sukks og óráðsíu í bönkunum skuli standa að þessu vantrausti.

Ég ráðlegg fyrrverandi viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins að fara yfir allar þær fyrirspurnir sem ég lagði fyrir hana á liðnum þingum. Þær skipta tugum á þeim tíma sem hún bar ábyrgð á bankakerfinu og var spurð um fjármálastöðugleika, möguleika bankanna til að ráða við skakkaföll, um óeðlileg innherjaviðskipti, stöðu innstæðusjóða, óeðlileg hagsmunatengsl og krosseignatengsl um þátttöku viðskiptabankanna í óskyldri starfsemi og fleira. Svör fyrrverandi bankamálaráðherra Framsóknarflokksins voru yfirleitt þau að allt væri í besta lagi og ekki væri tilefni til sérstakra aðgerða.

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé ekki rétt að þing verði rofið nú í jólamánuðinum eins og stjórnarandstaðan kallar eftir. Við stöndum í miðjum björgunaraðgerðum og stjórnarflokkarnir verða að fá svigrúm til að sýna hvort þeir nái saman um allra brýnustu aðgerðir og sameiginlega leið til framtíðar út úr vandanum áður en farið er að fastsetja kosningar. Ég skil hins vegar vel óþreyju fólks og reiði og veit að einstaklingar og fjölskyldur lifa nú í óvissu og ótta yfir versnandi hag. Fjöldi fólks hefur misst vinnuna eða sér fram á atvinnumissi og þúsundir einstaklinga, bæði ungir sem aldnir hafa misst stóran hluta af sparnaði sínum í yfirstandandi hremmingum. Það er hlutverk okkar, bæði ríkisstjórnar og Alþingis að berjast fyrir hagsmunum þessa fólks. Það er hlutverk okkar að vísa veginn út úr vandanum og verja heimilin eins og kostur er og endurreisa atvinnulífið.

Brýnustu viðfangsefnin sem stjórnarflokkarnir verða að ná saman um á næstu dögum og vikum eru að mínu mati eftirfarandi: Það þarf að koma gjaldeyrisviðskiptum aftur í lag þannig að vöru- og þjónustuviðskipti milli landa komist í eðlilegt horf og hjól atvinnulífsins fari að snúast. Það er grundvallaratriði að vandað verði til verka, fagaðilar standi þar að málum og að skýrar verklagsreglur liggi fyrir um hvernig það verði gert. Á því veltur hvort við náum okkur fljótt út úr gjaldeyriskreppunni og þar hefði þurft að fylgja að við stefnum sem fyrst að aðild að Evrópusambandinu til að auka og treysta trúverðugleika gjaldmiðilsins. Það þarf líka sem allra fyrst og er raunar forgangsverkefni, að endurskoða peningamálastefnuna, stjórnkerfi hennar og eftirlitsstofnanir. Það er lykilatriði að þessar mikilvægu stofnanir öðlist traust og trúnað á nýjan leik.

Mikilvægt er að af stað fari ítarleg rannsókn á aðdraganda og orsökum hruns fjármálakerfisins til að endurskapa trúnað og traust í samfélaginu og það er grundvallaratriði að henni verði hraðað eins og kostur er. Það er líka lykilatriði að bankastjórnirnar gæti hagsmuna eigendanna sem er fólkið í landinu og ekki verði hægt að draga það í efa. Eyða verður þegar í stað öllum efasemdum um að eitthvað óeðlilegt eigi sér stað með eignir í bönkunum.

Virðulegi forseti. Á næstu dögum þarf ríkisstjórn og þing að ná saman um fjárlög fyrir komandi ár. Í ljósi gjörbreyttra aðstæðna og samdráttar í tekjum liggur fyrir að sú fjárlagagerð verður erfið og mun kalla á skýra forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna. Velferðarkerfið verður að verja í þeim hremmingum sem fram undan eru. Í því efni er flatur niðurskurður fullkomlega óásættanlegur og mundi flytja velferðarkerfið mörg ár aftur í tímann. Efnahagskreppan mun ekki síst reyna á heimili og einstaklinga sem nú þegar standa höllum fæti og treysta á velferðarkerfið og þörfin fyrir aðstoð í velferðarkerfinu mun enn aukast á næstu mánuðum og missirum. Við slíkar aðstæður er óskynsamlegt að þrengja að velferðarkerfinu og dýpka þannig kreppuna heldur eigum við að slá skjaldborg um velferðarkerfið og kjör þeirra sem minnst hafa. Þetta er stóra verkefnið sem bíður stjórnarflokkanna að ná saman um á næstu dögum.

Virðulegi forseti. Þegar á næstu dögum þarf líka að setja fram kröftugar aðgerðir fyrir efnahagslífið sem veitir traust á því að endurskipulagning atvinnulífsins sé hafin. Lög um hlutastörf í stað uppsagna hjá starfsfólki eru þegar í höfn. Unnið er að enn frekari tillögum á reglum Atvinnuleysistryggingasjóðs þannig að hann geti stutt við fyrirtæki og einstaklinga til aukinnar virkni og atvinnusköpunar. Á vettvangi sjóðsins munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn atvinnuleysi og fyrirbyggja að langtímaatvinnuleysi festi hér rætur.

Áfram þarf líka að vinna að aðgerðum til að verja betur stöðu heimilanna, svo sem frumvarp um greiðsluaðlögun fyrir skuldugustu heimilin og hvort hægt sé að opna fyrir að heimilt verði að nýta séreignarsparnað í sérstökum tilvikum. Við höfum þegar sett af stað fjölda aðgerða til að verja heimilin, m.a. til að draga úr greiðslubyrði heimilanna, sporna gegn misgengi launa og lána, tímabundna frystingu gengistryggðra lána, afnám stimpilgjalda og þinglýsingargjalda af skuldbreytingum, að ekki verði hægt að skuldajafna barnabótum og vaxtabótum upp í opinber gjöld og lán hjá Íbúðalánasjóði. Þegar hefur líka verið ákveðið að lækka dráttarvexti og milda allar aðgerðir innheimtumanna hjá þeim sem komast í vanskil eða eru í nauðungarsöluferli. Þá skiptir líka miklu máli heimildir hjá Íbúðalánasjóði um að leigja fólki íbúðir í stað þess að þær fari á nauðungarsölu og einnig að heimilt sé að breyta óseldum íbúðum sem átti að selja í leiguíbúðir.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er stödd í miðjum björgunaraðgerðum eftir bankahrunið og uppbyggingarstarfið er handan við hornið. Í öllum ráðuneytum er unnið hörðum höndum að tillögum til að vinna þjóðina út úr vandanum. Á sama tíma birtist okkur stjórnarandstaða sem hefur engar lausnir, engin úrræði og engan styrk til að takast á við verkefnin. Þessi vantrauststillaga er ein birtingarmynd getuleysis hennar. Hún er sýndarmennska.