136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[17:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Verkin eru brýn sem bíða okkar nú. Við horfumst í augu við kerfishrun og þegar af þeirri ástæðu er vantraust á ríkisstjórnina og kosningar það síðasta sem okkur ætti að detta í hug. Við erum enn að bjarga miklum verðmætum og við megum engan tíma missa. Við verðum að taka betur á skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Við verðum að setja almennar leikreglur sem tryggja það að hægt sé að leysa okkur út úr þeirri erfiðu stöðu sem er komin upp vegna þess að skuldirnar eru meiri en reksturinn fær ráðið við. Og þá skiptir miklu að almennar leikreglur séu markaðar svo ekki komi til pólitískrar spillingar eða misbeitingar valds.

Virðulegi forseti. Það er líka mjög mikilvægt að við einhendum okkur í að breyta gjaldþrotalögum. Torveldum einstaklingum að fara í gjaldþrot og auðveldum einstaklingum að losna við þá skuldahala sem eftir standa. Við þurfum að endurreisa gjaldeyrismarkað til þess að koma í veg fyrir að almenningur og fyrirtæki þurfi að axla enn frekari byrðar en þó er ljóst að fólk þarf að bera vegna verðbólgu og gengishruns.

Við þessar aðstæður, virðulegi forseti, er það þyngra en tárum taki að við eyðum heilum degi í umræðu um tillögu sem allir vita að er gagnslaus og tilgangslaus. Og eins og kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, þingflokksformanni Vinstri grænna, fyrr í dag þá er vitað fyrir fram að tillagan verður felld. Það er sorglegra en tárum taki að koma með þessum hætti fram við fólk og draga athygli frá brýnum verkefnum. Binda þingheim og allt ráðherraliðið í einskisnýt verkefni heilan dag og halda fólki frá brýnum verkefnum. Þetta er ábyrgðarhluti.

Virðulegi forseti. Það er vakning um allt samfélagið. Það er vakning og fólk vill snúa baki við liðnum tíma og fólk vill ný vinnubrögð og ný tækifæri. (Gripið fram í.) Það er réttlát reiði almennings í samfélaginu. Henni þarf að beina í jákvæðan farveg. Þess vegna er rannsóknarnefnd á því sem aflaga fór gríðarlega mikilvæg og að niðurstaðan liggi fyrir sem allra fyrst. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu getum við öll tekið jákvæða afstöðu til nýrrar uppbyggingar og skapað heilbrigðan grunn fyrir samfélagið til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kynnti þá tillögu sem hér er rædd, tillögu um vantraust á ríkisstjórnina, í sjónvarpsfréttum á föstudag með því fororði að það þyrfti nýtt þing, með leyfi forseta: „Nýtt þing, nýja ríkisstjórn og ný andlit til að leiða þjóðina í gegnum þau miklu verkefni sem fram undan eru.“

Og hver eru þau nýju andlit sem okkur bjóðast og boðið er upp á? Er það hið spánnýja andlit hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrverandi bankamálaráðherra, sem við höfum þó séð býsna oft og býsna lengi? Eða er það hinn dauðþreytti dúett þeirra hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar?

Það hvarflar að manni að tillagan sem hér er sett fram í dag sé tilraun manna sem komnir eru á síðasta söludag til að varpa sér í nýjar umbúðir til að selja sig sem talsmenn nýrra tíma og forðast þannig að verða hluti af þeirri umræðu sem hér mun auðvitað fara fram um stjórnkerfið í heild, um ákvarðanirnar í heild og um fortíðina í heild.

Vegna þess, virðulegi forseti, að það sem upp úr stendur þegar horft er til málflutnings Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á undanförnum missirum er að þar er boðin kyrrstaða og óbreytt ástand og þar eru engar lausnir boðaðar sem breytt geta hlutskipti þjóðarinnar til hins betra.

Það sem upp úr stendur í málflutningnum er órofa varðstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þann gjaldmiðil sem kallað hefur yfir íslenska þjóð og yfir íslenskan almenning hærra matarverð og hærri vaxtakjör en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli. Þann gjaldmiðil sem skapar stórkostlega umgjörð undir eitt rosalegasta arðrán seinni tíma í Vesturheimi. Þann gjaldmiðil sem býr til farveg fyrir fjármagnseigendur til að mergsjúga atvinnulíf og heimili, daginn út og daginn inn. Og undir þetta arðráð styður Vinstri hreyfingin – grænt framboð og undir þessu arðráni vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð halda áfram. (JBjarn: Og þú styður …) Þessar klyfjar vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð halda áfram að leggja á almenning í landinu. (JBjarn: Af hverju léttir þá ekki evran?) Það er það sem stendur til, hv. þingmaður. Eitt brýnasta úrlausnarefni íslenskra stjórnmála er að losna við þann gjaldmiðil sem skapar þessar aðstæður. Sem torveldar íslensku atvinnulífi að búa við stöðugleika. Sem kemur í veg fyrir að heimilin fái notið sömu kjara og heimili í nágrannalöndunum. (Gripið fram í.) En þar má alltaf reiða sig á Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, að hún stendur vörð um óréttlætið og ætlar ekki að leita nýrra lausna þarna frekar en í neinu öðru. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það blasir við að við þurfum að horfast í augu við margt sem úrskeiðis hefur farið á síðustu árum. Við þurfum að horfast í augu við þá umgjörð sem við höfum skapað í samfélaginu um efnahagslífið, um viðskiptalífið. Og við þurfum að horfa til forgangsröðunar okkar allra í framhaldi af þessu hruni. Það er mjög mikilvægt að þjóðin fái að byrja með hreint borð eftir þetta hrun. Það er mjög mikilvægt að við leggjum grunn að vandaðri úttekt og umræðu í kjölfar þessa hruns.

En það skiptir miklu máli að við búum ekki í haginn fyrir lýðskrumara sem vilja reyna að selja sig þjóðinni sem nýja boðendur nýrrar stefnu. Hér er reyndar ekki um neitt annað að ræða en sömu gömlu lausnirnar í sömu gömlu pakningunum þótt búið sé að breiða yfir gamla litinn.

Virðulegi forseti. Við þurfum varðstöðu um nýtt samfélag. Við þurfum að byggja upp nýtt samfélag og íslenskur almenningur á betra skilið en (Forseti hringir.) þann varðstöðuflokk um óbreytt ástand sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon (Forseti hringir.) stendur í forsvari fyrir.