136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Tillaga þessi um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar er eðlileg og hún er þingræðisleg. Viðbrögð hv. stjórnarliða eru hins vegar athyglisverð. Sterk ríkisstjórn, samhent ríkisstjórn, ríkisstjórn sem er örugg með sig fagnar vantrauststillögu, hún fellir hana og telur að hún standi sterkari eftir. Hér bregðast stjórnarliðar öðruvísi við. Þeir væla, þeir kvarta og kveina yfir því að fá á sig vantraust og finna því allt til foráttu. Það er ekki mikil reisn yfir því.

Hæstv. heilbrigðisráðherra segir það óðs manns æði að kjósa í efnahagskreppu og bætir því við að það sé efnahagskreppa um allan heim. Vill þá hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson banna kosningar í heiminum næstu árin á meðan efnahagskreppan gengur yfir?

Þvættingi Björns Bjarnasonar, hæstv. dómsmálaráðherra, um að ég standi sérstaklega gegn því að rannsókn fari fram á orsökum og afleiðingum banka- og fjármálahrunsins vísa ég til föðurhúsanna. Hæstv. dómsmálaráðherra, sem með miklu frumhlaupi skrifaði ríkissaksóknara og setti sérstakan saksóknara sem síðan sagði sig frá verkinu þannig að ráðherrann varð að athlægi, kastar steinum úr glerhúsi. Ég frábið mér það að hæstv. dómsmálaráðherra fari hér með dylgjur eða slúður um slíka hluti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki setið á einum einasta fundi um þetta mál og ég kannast ekki við hans málflutning. (Gripið fram í: Hann er grjótkastarinn.) Ég vil segja hins vegar og það er rétt að ég stend fast í fæturna hvað það varðar að þessi rannsókn verði alvörurannsókn en ekki kattarþvottur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Haldi Sjálfstæðisflokkurinn eða Björn Bjarnason að þeir geti haft þetta eins og í gamla daga, að flokkurinn geti bara haft þetta hjá sér og rannsakað sjálfan sig, þá segi ég: Verði þeim að góðu. Haldi ríkisstjórnin að hún geti rannsakað þessa atburði og ábyrgð sína á þeim, bara ein og sér, þá segi ég: Verði þeim að góðu. Þjóðin mun ekki kaupa það.

Ég neyðist til að gera athugasemd við málflutning hæstv. umhverfisráðherra sem með ákaflega ósmekklegum hætti sagði að meira að segja að vinstri grænir stæðu fyrir sérstakri andúð á útlendingum. Ekkert er fjær sanni. Þetta er fullkomlega óboðlegur málflutningur og enginn flokkur hefur flutt fleiri tillögur á Alþingi á undanförnum þingum en við einmitt um réttindi útlendinga og að sómasamlega sé tekið á móti þeim.

Eina málsvörn ríkisstjórnarinnar hér er sú að hún standi í svo mikilvægum björgunarleiðangri og svo er það þetta með óvissuna sem kosningar skapa. Þá má spyrja tveggja spurninga: Er ríkisstjórninni að takast björgunarverkefnið vel? Svari hver fyrir sig. Það má líka spyrja: Getur óvissan aukist? Ég held að svarið sé nei við báðum spurningunum. Ríkisstjórnin þarf líka að svara því: Heldur hún að henni takist ætlunarverkið án stuðnings þjóðarinnar? Ætlar hún að gera þetta í andstöðu við þjóðina? Telur ríkisstjórnin að hún geti gert þetta þegar hún nýtur ekki trausts? Svarið er augljóst.

Hvað er svona voðalegt við kosningar? Kusu ekki Bandaríkjamenn í fyrri hluta nóvembermánaðar? Jú. Gerðu þeir það ekki í miðri kreppunni hjá sér og miðjum björgunarleiðangrinum? Og við hvað bindur bandaríska þjóðin núna vonir? Nýja ríkisstjórn með nýtt prógramm. Það er það sem við þurfum hér en ekki þetta þreytta lið sem búið er að klúðra málum, það er ekki trúverðugt. Stjórnarandstaðan hefur staðið hér að verki með ábyrgum hætti, við buðum upp á þjóðstjórn, við buðum upp á samstarf og við héldum að okkur höndum lengi vel í nóvembermánuði en nú er nóg komið. Við erum hér málsvarar þess mikla meiri hluta þjóðarinnar sem vill breytingar og þær verða ekki nema með kosningum. Samfylkingin verður að horfast í augu við það að hún getur ekki bæði verið og farið, bæði setið og staðið. Hún ber núna ábyrgð á því að Sjálfstæðisflokkurinn er enn við völd á Íslandi og ætlar sjálfsagt að gera það hér með atkvæði sínu á eftir. Það er ekki hátt risið á því.

Verkefnið fram undan er erfitt. Það er mikið en það mun takast (Forseti hringir.) ef ný ríkisstjórn með nýtt umboð frá þjóðinni fær hana á bak við sig (Forseti hringir.) í það að endurreisa Ísland sem nú er hrunið í höndunum á þessari ríkisstjórn.