136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:25]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það líður að lokum þessarar misheppnuðu umræðu í dag sem stjórnarandstaðan hefur efnt til. Hér er í ljós leitt að stjórnarandstaðan er ekki sammála um neitt nema að vera ósammála innbyrðis og leggjast gegn hlutum sem ríkisstjórnin leggur til og þó er hún ekki einu sinni sammála um það vegna þess að ýmsir aðilar í stjórnarandstöðunni, sérstaklega Framsóknarflokkurinn, hafa stutt dyggilega við bakið á ýmsu því sem ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir að undanförnu og fagna ég því sérstaklega.

Ég gat þess í ræðu minni í dag að vinstri grænir eru byrjaðir að telja upp úr atkvæðakössunum á grundvelli þeirra skoðanakannana sem gerðar hafa verið. Það er mikill misskilningur. Framsóknarflokkurinn reynir að breiða yfir það hvernig sundurlyndisfjandinn hefur leikið þann flokk, svo sorglegt sem það er að fylgjast með þeirri þróun, og ekki veit ég í hvaða leiðangri Frjálslyndi flokkurinn er með þessari tillögu. (Gripið fram í: En Sjálfstæðisflokkurinn?)

Sannleikurinn er sá, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin er með fangið fullt af verkefnum til að vinna þjóðina út úr þeim vanda sem við er að fást. Þessi umræða, ef eitthvað er, hefur þjappað ríkisstjórninni og stuðningsmönnum hennar í þingflokkunum saman í þeirri baráttu. Þeir sem hafa fylgst með málum vita að við höfum gert samning ekki bara við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heldur við ýmsar vinaþjóðir okkar. Frjálslyndir og ég tala nú ekki um vinstri græna hafa talað mikið fyrir því að við eigum að leita liðsinnis á Norðurlöndum og annars staðar, en nú haga þessir ágætu þingmenn sér eins og þeir geri sér ekki grein fyrir því að þaðan er enga fyrirgreiðslu að fá fyrr en eftir að fyrsta endurskoðun á áfangaskýrslu fer fram á aðgerðaáætluninni sem við höfum orðið sammála um að ráðast í ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hvenær gerist það? Jú, það er í febrúarmánuði. Þá vilja þessir ágætu menn, ef marka má þeirra eigin orð — þó að það standi nú ekki í þeirra tillögu — vera hér í miðri kosningabaráttu og hafa séð til þess í millitíðinni að það væri ekki búið að gera neitt sem þarf að gera næstu þrjá mánuðina. Það er það sem felst í tillögunni frá þeim. Þeir geta staðið hér og æst sig, eins og þeir gera alltaf, þessir ágætu vinir okkar, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem lemur utan ræðustólinn hér í hvert skipti sem hann er að ljúka ræðu sinni milli þess sem hann hækkar röddina og ... (Gripið fram í.) Já, gerðu svo vel. (Gripið fram í.) Ég er ekki hræddur við þjóðina, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Ég er ekki hræddur við þjóðina en þingflokkur Vinstri grænna — (Gripið fram í: … við lýðræðið.) man þingmaðurinn eftir dagblaði sem hét Þjóðviljinn og var einu sinni (Gripið fram í.) gefið út af flokksbræðrum hv. þingmanns? Hvenær talaði það virðulega blað í nafni þjóðarinnar þannig að réttnefni væri? Menn taka sér stundum meiri og digrari yfirlýsingar í munn en þeir geta staðið við, það er því miður þannig. (Gripið fram í.) Við höfum ákveðið kosningakerfi, hv. þingmaður og virðulegu þingmenn, sem byggir á því að kjósa á fjögurra ára fresti nema eitthvað sérstakt komi upp á. (Gripið fram í.) Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi núna með þeim hætti sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lýsa hér.

Virðulegi forseti. Við munum vísa þessari tillögu þangað sem hún á heima, þ.e. við munum fella hana, en í staðinn er lýst yfir einu allsherjarvantrausti á stjórnarandstöðuna á Alþingi.