136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:47]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Þegar mikinn vanda ber að höndum og áföll dynja á er mikilvægt að fólk standi saman. Þetta á bæði við um líf fjölskyldna og líf þjóðar. Ég vil ekki að við förum út í kosningabaráttu og kosningar núna og síst af öllu vil ég styðja tillögu sem er þannig gerð að ný framboð gætu komið fram. (Gripið fram í: Ha?) Ég vil styðja tillögur sem auka lýðræðið í landinu en ekki tillögu eins og þá sem hér er lögð fram og hefur þær afleiðingar að aðrir gætu ekki boðið fram nema við mjög erfið skilyrði. (Gripið fram í.)

Hluti lýðræðisins er sá að þingmenn fái að tala hér (Forseti hringir.) og segja frá skoðunum sínum án þess að gargað sé og gripið fram í fyrir þeim. (Forseti hringir.) Eitt af því sem hefur einkennt stjórnarandstöðuna í dag er að hún reynir að trufla (Forseti hringir.) málflutning fólks að ósekju og mjög illa. Ég er ósáttur við þetta og lýsi yfir óánægju minni.

Að lokum vil ég segja, (Forseti hringir.) herra forseti, að ég harma það að nefndin sem á að leiða (Forseti hringir.) sannleikann í ljós sé ekki komin fram og (Forseti hringir.) hvernig stendur á því? (Gripið fram í.)

(Forseti (StB): Hvað segir hv. þingmaður?)

Þingmaðurinn segir nei móti kosningu, á móti glundroða Vinstri grænna.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa gott hljóð. Við erum að greiða atkvæði um tillöguna.)