136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

kosningar og samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[14:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Krafan um kosningar er þung úti í samfélaginu og síst á undanhaldi þó að ríkisstjórnin hafi með atkvæðum sínum í gær komið sér frá því í bili. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér í gær og hefur síðan endurtekið í fjölmiðlum að það sé engin leið að kjósa á Íslandi, engin leið að gera breytingar á ríkisstjórn — eða yfirleitt neinar breytingar í stjórnmálum landsins ef ég skil hann rétt — vegna þess að Ísland hafi lagt inn umsókn um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sé á leiðinni þar inn í prógramm sem sjóðurinn þurfi að hafa eftirlit með. Þannig komi eftirlitsmenn sjóðsins hingað í febrúar og augljóslega sé ekki hægt að vera að kjósa eða breyta ríkisstjórn við þær aðstæður.

Nú mun þetta vera tveggja ára prógramm sem sett er upp af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og eftirlitsmenn sjóðsins koma þá hingað á þriggja mánaða fresti, næst í maí og svo koll af kolli. Þá er spurningin: Er hæstv. forsætisráðherra í raun og veru að segja þjóðinni að ríkisstjórn hans sitji nú í skjóli af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Er ekki hægt að gera breytingar, ganga til alþingiskosninga eða breyta ríkisstjórn á Íslandi vegna þess að við erum komin inn í prógramm hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Er þetta virkilega málflutningurinn?

Ég held að hæstv. forsætisráðherra verði að svara fyrir þetta á skýran hátt. Hvað á hann við þegar hann dregur upp þessa tengingu aftur og aftur milli umsóknar um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum annars vegar og stjórnmálalífsins á Íslandi hins vegar? Eigum við að taka þetta alvarlega? Er hæstv. forsætisráðherra að tala í fullri alvöru? Eru þetta virkilega rök sem hæstv. forsætisráðherra ætlar sér að nota framvegis, að koma sér hjá kosningum, ýta lýðræðinu til hliðar og sitja með ríkisstjórn sína ráðlausa og lemstraða eins og raun ber vitni upp á náð og miskunn og í skjóli af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Ég óska eftir skýrum svörum, herra forseti.