136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

kosningar og samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[14:09]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn blandar sér ekki í stjórnmál á Íslandi. Við höfum hins vegar gert við hann samkomulag um ákveðna efnahagsáætlun til tveggja ára. Fyrsti hluti hennar á að koma til framkvæmda nú á næstunni og framkvæmdin verður endurskoðuð í febrúarmánuði eins og margoft hefur komið fram. Að lokinni þeirri endurskoðun liggur fyrir hvort þau lönd sem hafa ljáð því máls að veita Íslandi lánsfé gera það eða ekki þannig að ákveðin tímamót verða hér í febrúarmánuði hvað þetta varðar.

Segjum sem svo að Alþingi hefði í gær samþykkt vantrauststillögu hv. þingmanns og að boðað hefði verið til kosninga, segjum innan þess tímaramma sem hv. þingmaður sagði í gær sem var reyndar ekki í samræmi við hans eigin tillögu, segjum að það hefði verið boðað til kosninga fyrir miðjan febrúar. Þá liggur fyrir að ekki hefði verið þingmeirihluti, ekki ríkisstjórn í landinu til að fylgja eftir þessum fyrsta áfanga sem búið er að semja um. Það hefði ekki verið mikið upplit á okkur ef sú staða hefði komið upp. Það er þetta sem ég hef verið að tala um.

Síðan munum við vonandi ganga nokkuð greiðlega í gegnum þessa áætlun þar til henni lýkur á árinu 2010 og þá reikna ég með, eins og margsinnis hefur komið fram, að horfur á efnahagsmálum verði farnar að batna mjög verulega eftir hið erfiða ár sem fram undan er, þ.e. árið 2009. En það er auðvitað rangt, út í hött og útúrsnúningur að gera því skóna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggi með störfum sínum einhvern stein í götu lýðræðisins á Íslandi. Það er fráleitt.