136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

kosningar og samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[14:12]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður virðist eiga erfitt með að sætta sig við þær leikreglur þingræðisins sem birtust okkur í gær. Tillaga hans var kolfelld ef ég man rétt, 42:18.

Málið snýst um það að menn taka sér stundum í munn orðið trúverðugleiki á Alþingi, að ríkisstjórn Íslands hafi þann trúverðugleika sem þarf til að fylgja eftir þeirri áætlun sem búið er að semja um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ef við ímyndum okkur að hv. þingmaður hefði fengið vilja sínum framgengt í gær og hann sjálfur eða stjórnarandstaðan haft forustu um að mynda nýja ríkisstjórn vitum við náttúrlega að hv. þingmaður og flokkur hans hefur verið mjög á móti þessu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það hefði verið upplit á því og trúverðugleiki mikill ef sá hópur hefði átt að taka forustuna í að fylgja eftir áætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Annaðhvort fylgja menn henni og þá verður þetta stjórnarsamstarf að halda áfram eða ef menn eru á móti því, þá tekur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon til sinna ráða.