136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

2. fsp.

[14:13]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þau tilmæli ríkisstjórnarinnar til fjármálafyrirtækja að frysta afborganir af erlendum lánum hafa verið framkvæmd á þann veg að skuldarar hætti að greiða alveg í ákveðinn tíma. Það hefur komið fram hjá viðskiptabönkunum að það er nokkuð umdeilt hvort rétt sé að ganga svo langt að breyta skilmálum bréfanna eða þannig fresta greiðslum upp á óbreytta fjárhæð, að borgi menn ekki neitt í ákveðinn tíma. Ég held að það hljóti að vera umhugsunarefni hvort framkvæma eigi þessa frystingu eða frestun með þessum hætti.

Það sem ég vildi aðallega spyrja hæstv. forsætisráðherra um er hvort hún sé í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar, sú framkvæmd sem ég hef fengið upplýsingar um og staðfestingu á að dæmi eru um, að við skilmálabreytingu geri fjármálafyrirtæki þá kröfu til skuldarans að hann samþykki breytingu á skilmálum lánsins frá því að gjalddaginn sé reiknaður út á gengi sem Seðlabanki Íslands ákveður yfir í að afborgunin sé reiknuð á gengi sem kröfuhafi ákveður. Mér finnst það mjög merkilegt ef ætlast er til þess að skuldari skrifi undir það. Ég veit dæmi þess að menn hafi gert það að kröfu fjármálafyrirtækisins að menn feli kröfuhafanum fullt umboð til að ákveða þá fjárhæð sem þeir eigi að greiða þar sem þeir ákveði gengið sem á að umreikna yfir í íslenskar krónur.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann þetta eðlilegt eða telur hann ástæðu til að ríkisstjórnin bregðist við þessari framkvæmd?