136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

íslenska ákvæðið og fundur um loftslagsmál í Kaupmannahöfn.

[14:22]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því í þessu samhengi að innleiðing viðskiptakerfis Evrópusambandsins um losunarheimildir sem þarf að fara fram hér á landi eigi síðar en 2012 samkvæmt EES-samningnum mun hafa mjög mikil áhrif á starfsumhverfi og viðskiptaumhverfi stóriðju og allra þeirra atvinnugreina sem ETF-kerfið eða viðskiptakerfið tekur til. Eins og menn vita er það nú í umræðu og undirbúningi innan Evrópusambandsins. Það mun m.a. valda því að flugið verður kvótasett árið 2012 eins og þingmenn þekkja og álframleiðsla verður væntanlega kvótasett árið 2013. Þar sem við erum innan EES-samningsins og þurfum að innleiða þetta mál hefur það verið rætt ítarlega í ríkisstjórn og annars staðar. Kortleggja þarf nákvæmlega hvað það þýðir í samningaviðræðum okkar innan Sameinuðu þjóðanna og í samskiptum okkar við Evrópusambandið og það gæti jafnvel farið svo að það væri best fyrir íslenskan iðnað (Forseti hringir.) að vera innan Evrópusambandsins en ekki utan þess.