136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

aðgerðir í atvinnumálum.

[14:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Hluti eftirlýstrar atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar er kominn fram í netheimum á bloggsíðu undir fyrirsögninni „Testamenti iðnaðarráðherra“ þar sem hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, upplýsir hvernig hann sér fyrir sér að íslenska þjóðin muni ná sér upp úr kreppunni. Testamentið lyktar langar leiðir af testósteróni og stórkarlalegum hugsunarhætti. Gott dæmi um það eru draumarnir um olíu á Drekasvæðinu. Í stað fjármálaævintýrisins á nú að leysa öll vandamál Íslands með því að leita að olíu sem mun samkvæmt hæstv. iðnaðarráðherra gera Ísland að ríkustu þjóð í heimi. Á vefsíðunni segir, með leyfi forseta:

„Ég hef látið nægja að segja að olíuvinnsla gæti í besta falli verið farin af stað eftir tíu ár.“

Í skýrslu iðnaðarráðuneytisins frá mars 2007 kemur ítrekað fram að starfsfólk við leit, rannsóknir, framkvæmdir og framleiðslu verði erlent þar sem engin þekking er til staðar innan lands á olíuvinnslu. En örvæntið ekki því að hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir að einhver störf verði til tímabundið á Norðurlandi við að fara yfir umsóknir um rannsóknarleyfi. Þá á ráðherrann von á því eftir 15–20 ár þegar erlend olíufyrirtæki hafa hugsanlega hafið vinnslu á svæðinu muni ein þyrla Landhelgisgæslunnar verða staðsett á svæðinu auk þess sem einhver störf kunna að skapast fyrir heilbrigðisstarfsmenn vegna þjónustu við starfsmenn borpallanna.

Hæstv. iðnaðarráðherra fer fram á að það neyðarástand sem nú ríkir í samfélaginu þar sem þúsundir manna hafa ýmist misst vinnuna eða eru við það, þar á meðal hundruð sérhæfðra starfsmanna í byggingariðnaði, verði leyst með nokkrum störfum við yfirferð umsókna og svo einni þyrlu og nokkrum heilbrigðisstarfsmönnum eftir 15–20 ár.

Ég spyr: Hvað ætlar ráðuneytið að gera núna til að leysa úr þeim bráða vanda sem blasir við íslensku atvinnulífi og þá sérstaklega í byggingariðnaði? Hvað ætlar ráðuneytið að gera til að tryggja þeim hundruðum ef ekki þúsundum manna sem hafa misst vinnuna eða eru að missa hana? Hvað ætlar ráðuneytið að gera núna til að hvetja þá fjölmörgu íslensku iðnaðarmenn sem þegar hafa flutt af landi brott vegna ástandsins í byggingariðnaðinum til að koma heim aftur?