136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

sérstakur saksóknari og aðgengi að gögnum bankanna.

[14:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú berast fréttir af því að unnið sé að sölu á íslenskum útibúum viðskiptabankanna sem hafa hrunið. Ég vil þess vegna nota tækifærið og spyrja hæstv. dómsmálaráðherra — vegna þess að hann hefur lagt fram ágætt frumvarp um sérstakan saksóknara í þeim efnum — hvort ekki sé mikilvægt að þau útibú sem nú eru á forræði Íslendinga, að viðskiptasaga sú sem í þeim er og þau gögn sem eru í útibúum íslensku bankanna í Lúxemborg og víðar um heiminn verði tilfærð hinum sérstaka saksóknara sem sækja þarf mál vegna bankahrunsins. Og þá auðvitað líka um leið rannsóknarnefndinni sem ríkisstjórnin hyggst setja á fætur, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og öðrum embættum sem út af fyrir sig falla ekki undir hæstv. dómsmálaráðherra.

Ég spyr hvort hæstv. dómsmálaráðherra telji ekki mikilvægt að áður en útibú bankanna erlendis séu seld noti Íslendingar þau tök sem þeir nú hafa á þeirri starfsemi til þess að tryggja að við fáum þær upplýsingar sem þar er að finna. Ekki til þess að falla frá bankaleynd því mikilvægt er að staðinn sé vörður um bankaleynd og friðhelgi einkalífsins enda hafa langflestir þeirra sem þarna hafa átt viðskipti verið í heiðarlegum viðskiptum, heldur vegna hins augljósa að hafi verið framin brot í aðdraganda bankahrunsins þá er líklegt að hin erlendu útibú íslensku bankanna tengist þeim aðgerðum, ýmsum fjármálagjörningum, flækjum milli félaga, tengslum við skattaparadísir erlendis o.s.frv.

Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann hafi gert ráðstafanir til þess að tryggja það að við nýtum þetta aðgengi að þessari starfsemi núna áður en hún verður seld. Og ef ekki hvort hann telji mikilvægt að það verði gert til þess að greiða fyrir störfum hins sérstaka saksóknara.