136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

sérstakur saksóknari og aðgengi að gögnum bankanna.

[14:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram þegar við ræddum frumvarpið um sérstakan saksóknara þá eru skýr verkskil á milli lögregluyfirvalda og ákværuvalds annars vegar og skattrannsókna og Fjármálaeftirlits hins vegar. Og ég hef séð það, eins og væntanlega aðrir hv. þingmenn, að Fjármálaeftirlitið er farið af stað með rannsókn sína og síðan er það Fjármálaeftirlitsins, ásamt ákæruvaldinu og lögreglunni, að gera grein fyrir því ef það telur að um lögbrot sé að ræða eða ástæða sé til að kalla til lögreglu eða ákæruvaldið. Að sjálfsögðu er það hægt og verður enn þá öflugra þegar frumvarp mitt er orðið að lögum.

Ég geng að því sem vísu að Fjármálaeftirlitið tryggi að þessi saga haldi sér þannig að það sé unnt að rekja allar færslur og öll viðskipti eins og vera ber.