136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[14:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleira, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er lögð til tímabundin heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt og vörugjald af notuðum ökutækjum sem eru afskráð og flutt úr landi fram til 1. apríl 2009.

Verulega hefur dregið úr sölu nýrra og notaðra ökutækja hérlendis á síðustu mánuðum og nú er svo komið að verulegur fjöldi ónotaðra ökutækja hefur safnast upp. Frumvarpi þessu er því ætlað að greiða fyrir sölu notaðra ökutækja úr landi sem auka mun gjaldeyristekjur inn í landið til skemmri tíma.

Endurgreiðslan tekur mið af þeirri fjárhæð sem greidd var í vörugjöld og virðisaukaskatt við innflutning ökutækisins að teknu tilliti til aldurs þess. Þannig lækkar viðmiðunarfjárhæð endurgreiðslu um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð, fyrstu 12 mánuðina eftir skráningu ökutækisins, og 1,5% fyrir hvern mánuð eftir það. Af því eru ökutæki sem eru með lengri skráningartíma en fimm ár ekki endurgreiðsluhæf.

Samkvæmt frumvarpinu hafa eigendur ökutækja sem notið hafa innskattsréttar af ökutækjum sínum ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í frumvarpinu er einnig lagt til að tollstjórum verði veitt heimild til gjaldtöku vegna eftirlits með ökutækjum sem flutt eru úr landi, en tollstjórinn í Reykjavík mun annast endurgreiðslurnar.

Gera má ráð fyrir að breytingin kunni að kosta ríkissjóð 1,5–2 milljarða kr. í beinum endurgreiðslum en á móti vega óbein áhrif aukinnar veltu og veltuskatta af þeim gjaldeyri sem fæst fyrir ökutækjaútflutninginn. Áætlað er að allt að 5.000 ökutæki verði flutt úr landi á næstu mánuðum.

Herra forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.