136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[14:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög vafasamt í „prinsippinu“ að taka þá ákvörðun eftir á að endurgreiða fólki skatta úr ríkissjóði. Hér geta þó verið málefnalegar ástæður sem liggja til grundvallar en venjulegt fólk sem fer brátt að ganga í gegnum fjárhagserfiðleika mun ekki fá endurgreiðslur skatta sinna.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt til þess að standa vörð um frið og sátt í samfélaginu að nefndin skoði vel hvort ekki sé rétt að setja hér þak á þannig að ekki rísi upp dæmi um gríðarlegar endurgreiðslur á sköttum til efnafólks á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum nú.

Hitt sem ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra um varðar eðlilega aðhaldssemi í ríkisfjármálum vegna þess að við erum að fara inn í erfitt ár í ríkisfjármálunum, hvort ekki sé eðlilegt að setja þak á heildarfjármagnið sem rennur í þetta verkefni því að eins og frumvarpið liggur fyrir er það eins og opinn tékki.

Við setjum t.d. velferðarstofnunum þak á fjárveitingar. Fjárveitingar þeirra eru fastar og þarf að miða við það. Er ekki eðlilegt að gera ráð fyrir ákveðnum fjármunum til þessa verkefnis á næsta ári? Ef bílaútflutningur verður meiri leiðir það þá ekki til aukinna ríkisútgjalda umfram það sem áætlað var sem kallar á niðurskurð í velferðarþjónustunni eða aðrar íþyngjandi aðgerðir fyrir almenning? Það er eðlilegt að miða við að þegar búið er að flytja úr landi þessa 5.000 bíla sé þessari fjárveitingu einfaldlega lokið.