136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:16]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurt er hvort sá sem hér stendur sé tilbúinn til að takmarka hvað bíll má kosta sem fluttur er úr landi og nýtur endurgreiðslu. Ég mun ekki styðja það. Ég trúi varla að þingmaður Vinstri grænna vilji síst af öllu flytja út þá bíla sem mest menga og slíta götunum, mér finnst það ótrúlegt.

Hins vegar skal ég styðja þingmanninn í því að reynt verði að setja reglur um, ef mögulegt er, að gjaldeyririnn sem verður til við sölu bíla úr landi skili sér inn. Ég hjó eftir því atriði í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra áðan og held að það sé mikilvægt, því það er hluti af tilganginum með þessu. Ég skal því standa á bak við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur með það, en ég held að ekki sé síður mikilvægt að búa til verðmæti úr rándýrum bílum sem standa ónotaðir og mikil verðmæti eru í. Ekki er gott að láta þá grotna niður á götunum og miklu betra að búa til verðmæti úr þeim núna. Kannski getum við flutt inn rafmagnsbíl síðar í stað jeppans sem fluttur er úr landi.