136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

niðurfelling laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs.

169. mál
[15:50]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Það er nú líkast til, herra forseti, eins og hv. þingmaður sagði, að sjóðurinn hefur lagt gjörva hönd að verki við að styðja margvíslegt jákvætt framtak í sveitinni nyrðra. Atvinnuþróunarfélagið mun með þá peninga í höndunum örugglega halda því áfram. Eins og hv. þingmaður sagði hefur þessi sjóður skipt máli. Þarna er um að ræða það sem ég kalla smurningsolíu á gangverk atvinnulífsins. Það er mjög mikil drift í fólki í þessari sveit og margar góðar hugmyndir sem fram hafa komið þar. Eins og hv. þingmaður nefndi hafa þær sumar gengið býsna vel.

Hvern hefði t.d. órað fyrir því að jarðböðin, sem sett voru á stofn og heita víst Baðfélag Mývatnssveitar hf. í dag, mundu á þessu ári taka á móti fast að 80 þús. gestum? Það er tæplega fimmtungur þess fjölda sem sækir það sem hingað til hefur verið ókrýnt í öndvegi íslenskrar „spa-ferðaþjónustu“, þ.e. Bláa lónið sem ég held að eitthvað á fimmta hundrað þúsund gesta heimsæki.

Í Mývatnssveit eru líka mjög sterkir frumkvöðlar sem hafa margvísleg áform. Þeim hefur t.d. tekist það sem höfuðskáldi okkar Einari Benediktssyni tókst aldrei, þeim hefur tekist að selja norðurljósin.

Það er alveg ljóst að viðfangsefnin eru næg og það væri mjög vel við hæfi að Atvinnuþróunarfélagið, sem tekur nú að samþykktu þessu frumvarpi einhvern tímann síðar í vetur við þessum fjármunum, haldi áfram á þessari braut, að styrkja öflugustu vaxtarsprotana í Mývatnssveit sem eru hin sterku ferðaþjónustufyrirtæki sem þar eru að koma upp.

Svo, herra forseti, gleðst ég auðvitað yfir því að loksins er sú stund runnin upp að hv. þingmenn Vinstri grænna ljúka bara upp höndum í fagnaðarlátum yfir frumvarpi frá iðnaðarráðuneytinu.