136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

tóbaksvarnir.

162. mál
[15:59]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna hverju því frumvarpi sem kemur fyrir hv. Alþingi sem er í þá átt að efla tóbaksvarnir og í framhaldinu ef það verður til að draga úr tóbaksneyslu hvort heldur það er í formi reyktóbaks eða annars tóbaks. Ég vil rifja upp frumkvæði okkar Íslendinga þegar við tókum upp aðvörunarmerkingar á reyktóbak og gerðum það mjög myndarlega með myndum og vöktum mikla athygli fyrir og aðdáun margra fyrir frumkvæði og áræðni í tóbaksvörnum og í framhaldinu góðan árangur. En við gengum fram úr Evrópusambandinu og urðum að fella niður þessar merkingar þar sem þær voru kærðar og við urðum að fella okkur að þeim merkingum sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég fagna því að tóbaksvarnir skuli vera komnar svo langt á Evrópska efnahagssvæðinu að leyfðar séu viðvörunarmerkingar og það í formi litmynda og með texta þar sem kemur fram eins og verið hefur skaðsemi reykinga og hvaða áhrif tóbaksnotkun hefur á heilsuna, ekki getur haft heldur í raun og veru hefur á heilsuna ef þessa er neytt. Þetta á sérstaklega við og snýr að börnum eða unglingum. Þá ber sérstaklega að hafa þetta í huga.

Ég held að við þurfum á svo mörgum sviðum að standa vaktina í dag. Þó svo við séum búin að setja og taka upp reglur og banna reykingar á opinberum stöðum, á veitingahúsum þar sem matar er neytt og inni á skemmtistöðum þá kemur alltaf upp öðru hverju og við verðum vör við það á hv. Alþingi áhugi ákveðinna aðila að brjóta niður þær reglur sem við höfum komið á. En ég vara við því að látið verði undan þeim því hvert ríkið á fætur öðru, í raun og veru hver heimsálfan á fætur annarri er að taka upp hertar tóbaksvarnir og þá sérstaklega núna um bann við reykingum á almenningsstöðum og reyna af fremsta megni að verja fólk fyrir óbeinum reykingum og í öðru lagi eða jafnframt að hindra það að ungt fólk byrji að reykja.

Þetta er orðinn mjög kostnaðarmikill þáttur fyrir heilbrigðisþjónustuna í viðkomandi löndum þar sem tóbaksneysla er mikil og er farin að taka í, ég tala ekki um með hækkandi aldri að þá eru ríki farin að horfa á þann kostnað sem skaðsemi tóbaks veldur, ekki eingöngu á skatttekjurnar við að selja tóbakið heldur í hinn endann, sem er miklu þyngri, um heilsufarsleg áhrif og kostnað í heilbrigðisþjónustunni.

Ég vona að þessu frumvarpi verði vel tekið í hv. heilbrigðisnefnd og að við getum afgreitt það með þeim frumvörpum sem við náum að afgreiða núna fyrir áramót. Ég held að það liggi svo ljóst fyrir að þessar breytingar séu jákvæðar að málið eigi ekki að vefjast fyrir mönnum.

Hæstv. forseti. Ég tel að við eigum að skoða fleiri þætti sem snúa að tóbaksvörnum. Þá er mér í huga núna það sem ég veit að hvílir á mörgum og það er hvernig við högum sölu á tóbaki. Ég held að langflestir séu fylgjandi því eftir að tóbaksvara sé ekki sýnileg en við leyfum sölu á tóbaki í kössum verslananna þar sem unglingar hafa verið algengasti vinnukrafturinn. Það er mjög óþægilegt og óeðlilegt að leggja það á unglinga að standast þá freistingu eða þrýsting frá félögum og jafnvel skólafélögum að selja ekki tóbak undir 18 ára aldri. Ég tel því að við eigum að skoða þennan þátt og leyfa hugsanlega sölu, þ.e. ef tóbak verður áfram selt í matvöruverslunum að leyfa þá eingöngu söluna í „kjóski“ eða á sérstökum stöðum þar sem fullorðnir afgreiða, taka það frá afgreiðsluborðunum og koma sölunni í „kjóskana“.

Eins hef ég haft fréttir af því að verið sé að gera tilraun með sölu á tóbaki í sjálfsala eða nokkurs konar sjálfsala og það tel ég að hv. heilbrigðisnefnd eigi að skoða samhliða þessu frumvarpi eða umfjöllun um tóbaksvarnir almennt, þ.e. hvort við séum að horfa fram hjá því að verið sé að reyna að koma nýrri sölumennsku á tóbaki inn í verslanir í dag.