136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á vegum þingsins er til umfjöllunar ágætt frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um sérstakan saksóknara og vegna þess að við ræðum hér störf þingsins og mér er kunnugt um að allsherjarnefnd hefur þegar hafið umfjöllun um málið þá vildi ég fá að nota tækifærið og inna hv. þm. Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, eftir því hverjar horfur eru um vinnslu málsins. Ég held að það sé kunnara en frá þurfi að segja að mikið er kallað eftir því að hér verði bæði sett á rannsóknarnefnd, sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og unnið hefur verið hratt að og örugglega, og sömuleiðis að settur verði sérstakur saksóknari til að vinna að rannsókn þeirra mála sem kunna að hafa orðið í aðdraganda hrunsins og ríkisstjórnin hefur nú skilað því inn í þingið. Ég vildi þess vegna spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson hvenær hann vænti þess að hægt verði að ljúka umfjöllun um málið þannig að hægt verði að taka til óspilltra málanna við þetta og hvernig hann sjái þá þróun á næstunni. Það er auðvitað mikilvægt að það bitni ekki á vandaðri málsmeðferð í þinginu og er gott til þess að vita að vinnsla málsins er í traustum og öruggum höndum hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni og allsherjarnefnd þingsins. Um leið er mikilvægt að þingið og þjóðin fái skilaboð um það hvenær vænta megi þess að Alþingi fyrir sitt leyti ljúki þessari löggjöf þannig að hægt sé að taka til óspilltra málanna, sérstaklega vegna þess að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra upplýsti mig um það í gær að meðan vinnsla þessa frumvarps er í gangi er frumkvæðisvinna af hálfu embættisins ekki fyrir hendi. Það sinnir ekki þeim málum sem koma t.d. upp í fjölmiðlum eða opinberri umræðu en tekur aðeins til athugunar þau mál sem beinlínis berst kæra vegna og vegna þess að í þessum málum er klárlega frumkvæðisþörf þá held ég að það standi upp á okkur á Alþingi að reyna að hraða afgreiðslu máls dómsmálaráðherra svo sem kostur er en um leið vanda til verka.