136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að taka þetta mál upp og vekja athygli á því vegna þess að ég held að mikilvægt sé að það komi fram að góð samvinna er um þetta mál á vettvangi allsherjarnefndar. Frumvarpið sem dómsmálaráðherra flutti um stofnun embættis sérstaks saksóknara var afgreitt eftir 1. umr. síðastliðinn föstudag og vísað til allsherjarnefndar sem hefur auðvitað hafið umfjöllun sína um málið og miðað við það sem fram hefur komið í nefndinni er góð samstaða þar um að hraða afgreiðslu málsins svo sem kostur er. Auðvitað eru skiptar skoðanir um einstök atriði í frumvarpinu en þó held ég að mér sé óhætt að segja að óvenjuvíðtæk samstaða er um meginþætti þess og þess vegna á ekki ágreiningur að tefja fyrir því að málið verði afgreitt af hálfu nefndarinnar.

Það er í forgangi hjá nefndinni þessa dagana að vinna að þessu máli og allir gera sér grein fyrir því að afar mikilvægt er að þessi mál komist í skýran, skipulegan og góðan farveg. Ég treysti mér til að segja að allsherjarnefnd muni stefna að því að ljúka umfjöllun sinni um málið þannig að hægt verði að taka það til 2. umr. og vonandi lokaafgreiðslu í næstu viku. Ég vil ekki vera nákvæmari en þetta vegna þess að vinnan á vegum nefndarinnar er ekki lengra komin en svo að ekki er hægt að segja nákvæmlega til um það. Hins vegar eru nefndarmenn sammála um það, hygg ég, að þetta sé forgangsmál sem mikilvægt er að koma í gegn sem allra fyrst.