136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:35]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Það er skoðun mín að unnt hefði verið að hefja rannsókn á þessu máli strax í kjölfar bankahrunsins 6. október að óbreyttum lögum en það var kosið að fara þessa leið sem hefur tafið rannsóknina. Ég get tekið undir með hv. formanni allsherjarnefndar að það er samstaða um að flýta þessu máli í gegn og vilji til þess. Á því þarf þó að gera ákveðnar breytingar að mínu mati og fleiri. Þær lúta að 1. gr. um að rannsóknin taki einnig til atburða í kjölfar 6. október sl. Í öðru lagi hef ég haft athugasemdir um það að dómsmálaráðherra skipi einn sérstakan saksóknara. Ég held að full samstaða verði að vera um að ráðningin njóti trausts í samfélaginu. Í þriðja lagi hef ég bent á að það væri æskilegt að útvíkka 4. gr. þannig að þeir sem gefa upplýsingar og geta átt von á niðurfellingu saksóknara taki til fleiri en starfsmanna og stjórnarmanna fyrirtækja, það eigi líka að ná til annarra sem eiga í hlutdeildarbrotum og öðru slíku og ég held að það sé líka samstaða um það.

Gerðar voru athugasemdir um gildistíma laganna, að hægt sé að fella embætti þessa saksóknara niður 2010 sem er minna atriði, en eitt stórt atriði í þessu er þó það að samspil er milli rannsóknarinnar á vegum hins sérstaka saksóknara og Fjármálaeftirlitsins. Það er ákveðið samspil í gildandi lögum þar að lútandi. Þannig er að t.d. kærur um innherjaviðskipti verða að fara til Fjármálaeftirlitsins og Fjármálaeftirlitið ákveður hvort kæra verði send til lögreglunnar. Þetta finnst mér algerlega útilokað. Fjármálaeftirlitið er „involverað“ í þetta auk þess sem staðan er sú í dag að Fjármálaeftirlitið eða réttara sagt skilanefndir í umboði Fjármálaeftirlitsins reka hina gömlu banka. Það er algerlega óforsvaranlegt af minni hálfu að sami aðili, Fjármálaeftirlitið, hafi eftirlit með gömlu bönkunum og reki þá og eigi jafnvel að gegna, að óbreyttum þessum lögum, ákveðnu rannsóknarhlutverki að því er varðar innherjaviðskipti. (Forseti hringir.) Það þarf að skera á þetta samspil þannig að hinn sérstaki saksóknari hafi allar heimildir, líka heimildir Fjármálaeftirlitsins.