136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:44]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu og þeirri áherslu sem þingmenn allir hafa lagt á að hraða þessu máli í gegnum þingið. Við skulum ekki gleyma að það kom býsna seint fram og það er hætt við því að rannsóknargögnum hafi verið spillt og það er líka hætt við því að eignum hafi verið skotið undan. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að það liggja ekki bara þessi tvö mál fyrir á verksviði þingsins, annars vegar um sérstakan saksóknara og hins vegar á vegum forseta þingsins um sérstaka rannsókn, heldur höfum við þingmenn Vinstri grænna einnig lagt fram frumvarp til laga sem heimilar Fjármálaeftirlitinu kyrrsetningu á eignum þeirra sem voru stjórnendur og eigendur gömlu bankanna og skyldum aðilum. Ástæðan er einfaldlega sú að samkvæmt núgildandi lögum og af því að rannsókn hefur ekki einu sinni hafist er ekki hægt að tryggja þá hagsmuni sem skattgreiðendur og ríkissjóður hafa gagnvart þessum eignum. Það er ekki nokkur leið vegna þess að rannsókn er ekki hafin. Meðan svo er er alveg nauðsynlegt að styrkja heimildir til kyrrsetningar. Ég bendi á að það eru sameiginlegir hagsmunir fyrrverandi eigenda og stjórnenda bankanna og alls almennings að slík rannsókn hefjist sem fyrst og kyrrsetning mundi í rauninni vera mikill hvati til þess.