136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það var aðeins nefnt að ég tæki þetta mál upp undir störfum þingsins. Ég verð nú að segja að undir þessum dagskrárlið hafa hinir furðulegustu hlutir verið teknir upp sem varða ekki störf þingsins.

En hér erum við að ræða einmitt um störf þingsins og ég held að þátttakan í umræðunni sýni ágætlega að til hennar var ástæða að efna. Ég hefði getað spurt félaga minn hv. þm. Birgi Ármannsson að þessu hér í hliðarherbergi en ég held að við hljótum öll að hafa orðið vör við að úti í samfélaginu hefur fólk áhyggjur af því að þessi vinna sé að dragast. Mér fannst þess vegna tilvalið að gefa formanni allsherjarnefndar tækifæri til að upplýsa almenning um þá hröðu og öruggu afgreiðslu sem hann fyrirhugar á málinu og fulltrúum annarra stjórnmálaflokka að koma hér upp og gera grein fyrir og lýsa með opinberum hætti sama áhuga til þess að reyna að draga úr þeirri tortryggni og efasemdum sem uppi eru í samfélaginu.

Ég held að það sé út af fyrir sig ekki nema gott eitt að við ræðum um störf okkar í nefndum með þeim hætti fyrir opnum tjöldum þegar mikill áhugi er á þeim hjá almenningi.

Ég vildi vegna umfjöllunar meðal annars í erlendum fjölmiðlum í gær um fjárskort við rannsóknir á málum sem þessum á Íslandi nefna það, vegna þess að ég veit að hv. formaður allsherjarnefndar mun koma hér aftur, hvort hann taki ekki undir með mér um að það sé alveg ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að hér sé bæði hjá stjórnarmeirihlutanum og þinginu öllu fullur og eindreginn vilji til að fá þessu rannsóknarembætti og þeirri rannsóknarnefnd sem ríkisstjórnin mun flytja hér tillögu um þá fjármuni sem til þarf til þess að leysa verkið vel og giftusamlega af hendi þannig að við getum síðan líka úr þessum ræðustól reynt að eyða efasemdum um að skortur á fjármunum eða aðstöðu muni spilla fyrir (Forseti hringir.) þeirri rannsókn sem nauðsynlega þarf að fara fram.