136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:13]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að verja tíma mínum til þess að fara yfir söguna fram að þessu, heldur einbeita mér að því ástandi sem við blasir núna.

Við höfum fengið lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum vinaþjóðum. Það hefur verið upplýst hversu mikið það er og ég held að það sé sú líflína sem við eigum í augnablikinu og fyrsta skrefið til að styrkja krónuna sem er auðvitað algjört forgangsmál fyrir atvinnulífið, peningamálin, heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Um þessa stöðu og þetta markmið verður þjóðin að sameinast, bæði til þess að fólk viti hvaða verðmæti það hefur í höndunum í krónum og gjaldeyri talið og hafi trú og traust á þeim aðgerðum sem fram undan eru. Í raun og veru snýst þetta allt núna um trú og trúverðugleika.

Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Alþingi verða að ganga í takt. Úr því sem komið er er engin önnur leið og það verður að útskýra á mannamáli og það verður að skýra og stimpla inn hvað þessar ráðstafanir hafa í för með sér, bæði það jákvæða sem hið erfiða, hvernig þessi áætlun er hugsuð og hvert er stefnt.

Virðulegur forseti. Óvissan og óttinn í þjóðfélaginu hefur skapast fyrst og fremst vegna þess að skilaboðin hafa ekki verið nægilega skýr. Úr því verður að bæta því að Íslendingar hafa bæði kjark og getu til að brjótast út úr erfiðleikunum þegar þeir vita hvað er fram undan. Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur verið samþykkt og ákveðið, alþjóðasamfélagið vill núna rétta okkur hjálparhönd og nú ríður á að við göngum öll í takt hvar í flokki sem við stöndum til að taka þennan slag. Seðlabanki og ríkisstjórn verða að stýra þessari för þannig að við hin, óbreyttir þingmenn (Forseti hringir.) og þjóðin öll, skilji að framtíðin stendur og fellur með því að þetta takist.