136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:17]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert og mun verða athyglisverðara í framtíðinni að rifja upp þann tíma sem liðinn er á þessu ári og aðdragandann að bankahruninu, allar viðvaranir sem komu fram framan af ári um hvert stefndi og um yfirlýsingarnar um að botninum væri náð, að bjart væri fram undan og að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefði farið að bera árangur í sumar. Þetta verður auðvitað allt rætt síðar. Það er ljóst að hæstv. ríkisstjórn ber mjög mikla ábyrgð á þessu ferli öllu saman en þrátt fyrir það hefur komið fram hjá formanni Samfylkingarinnar að sá flokkur ber ekki mikla ábyrgð. Það kom fram á fundi flokksins um síðustu helgi og ég túlka það sem svo að þar með vísi Samfylkingin allri ábyrgð á þessum málum yfir á samstarfsflokkinn, yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Það verður fróðlegt að heyra hvað sjálfstæðismenn, hv. þingmenn og ráðherrar, segja við því.

Hæstv. forsætisráðherra hefur farið yfir skýringar sínar á ferlinu frá því að Alþingi veitti lántökuheimild til að styrkja gjaldeyrisforðann og það er alveg augljóst að íslenska ríkið og Seðlabankinn höfðu ekki aðgang að lánsfé. Hæstv. forsætisráðherra skýrði það hér þó að ýmsar spurningar vakni við það. Ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort það hafi ekki komið til greina um eða fyrir mitt árið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um samstarf á þeim tíma þegar ljóst var að ekki fékkst erlent lánsfé til að styrkja gjaldeyrisforðann þrátt fyrir að menn teldu það mjög mikilvægt og nauðsynlegt í ljósi þess sem menn töldu sig sjá fyrir. Ég vildi gjarnan heyra hæstv. forsætisráðherra fara yfir það hér hvort slíkt hafi komið til greina á þeim tíma til að bregðast við í raun og veru áður en að verulegt vandamál kæmi upp. Mér sýnist á öllu, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hafi ekki gert sér grein fyrir því í aðdraganda þessa hruns (Forseti hringir.) hvert stefndi. Það er auðvitað miður.