136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:29]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja út af orðum hv. þm. Péturs Blöndals að hann hefur talað mikið fyrir virðingu og mikilvægi Alþingis. Þess vegna finnst mér mikilvægt að hér fari fram umræða um það hvernig staðið var að eflingu gjaldeyrisforðans þegar Alþingi hafði heimilað með mjög skömmum fyrirvara og mjög hraðri meðferð, má segja, 500 milljarða lántöku. En nóg um það.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin sem voru ekki alveg nægilega nákvæm að mínu mati. Það var mikið um að hæstv. ráðherra talaði eins og að þetta hafi allt saman verið mjög erfitt. Ég efast ekki um að það hafi verið það, ef ég gríp niður í ræðu hæstv. ráðherra var hún svona:

Menn hafa gert sitt ýtrasta, gerðu ýmsar tilraunir, það var horfið frá því að reyna, ekkert fé að sækja, markaðsaðstæður þannig, ekki mögulegt að taka lán.

Þetta er kannski í stuttu máli ástandið eins og það var og miðað við það að ástandið var svona getur maður ekki annað en ályktað sem svo að hæstv. forsætisráðherra og forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi gert sér nokkra grein fyrir því að það var vá fyrir dyrum. En hæstv. ráðherra talaði um að samstaða hefði verið milli ríkisstjórnar og Seðlabanka um það hvernig staðið skyldi að málum. Það var ekki alveg að mínu mati miðað við það sem kemur fram í fréttum, það var t.d. um miðjan apríl sem hæstv. utanríkisráðherra sagði að bankarnir gætu búist við stuðningi ríkisvaldsins og þá sagði formaður bankastjórnar Seðlabankans að það væri meginverkefni bankanna að bjarga sér sjálfir.

Hæstv. forseti. Ég tel engu að síður ástæðu (Forseti hringir.) til að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin þótt þau hefðu mátt vera nákvæmari.