136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna.

136. mál
[14:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Það sem mér fannst vanta upp á var að fá frekari umfjöllun og frekari útskýringar á því hvort ekki séu enn uppi áform um að stofna til þessa skóla. Það sem er í gangi núna er tilraunaverkefni eins og kom fram hjá ráðherra. Mér var kunnugt um þessa úttekt sem hefur verið unnin. Ég er líka búin að heyra af því að úttektin lofi góðu, það sé mikil ánægja með það sem hér hefur verið gert á þessu sviði og að þeir nemendur sem hér hafa verið hafi verið mjög ánægðir með þá uppfræðslu sem þeir fengu hér. Mér sýnist geta stefnt í að þetta verði að veruleika. Þetta er þriggja ára verkefni og við erum á öðru ári í tilraun.

Ég vonast til að hæstv. ráðherra segi okkur í síðari ræðu sinni nákvæmar frá því hvort ekki séu enn þá uppi áform um að stofna til þessa skóla vegna þess að það framlag sem lagt yrði til hans yrði að öllum líkindum og nánast örugglega metið á svipaðan hátt og hefur verið með Jarðhitaskóla og Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, að þessi kostnaður sé metinn sem framlag til þróunarsamvinnu. Þetta er það sem mig langar til að heyra aðeins nánar um hjá hæstv. ráðherra.