136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna.

136. mál
[14:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Við værum ekki að sækja um aðild að tengslaneti Háskóla Sameinuðu þjóðanna ef okkur væri ekki full alvara með þessu verkefni og að halda því áfram. Ég hef sagt það áður og við önnur tilefni að ég sé það fyrir mér að við gætum verið með ferns konar starfsemi á Íslandi sem byggði á þeirri sérþekkingu sem við höfum, gæti nýst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og verið hluti af Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Það er í sjávarútvegsmálum og í jarðhita, á sviði landgræðslu og jafnréttismála.

Þetta eru okkar styrkleikar og þetta er það sem við eigum að vera með í útrás, ef svo má segja, á alþjóðavettvangi og eru útrásarverkefni sem eru ekki byggð á sandi, heldur á góðum og kjarnmiklum grunni, starfi hér í áratugi og mikilli sérfræðiþekkingu. Við værum ekki að fara með þetta inn í tengslanet Háskóla Sameinuðu þjóðanna ef okkur væri ekki full alvara með að halda þessu verkefni áfram.