136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

jafnræði kynja í ríkisbönkum.

126. mál
[14:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég beini hér þremur fyrirspurnum til hæstv. fjármálaráðherra. Þær hljóða svo, með leyfi forseta:

1. Hver ber ábyrgð á því að jafnræðis sé gætt milli kynja við skipulagsbreytingar í nýju ríkisbönkunum þremur?

2. Hvert var kynjahlutfall meðal stjórnenda bankanna þriggja fyrir yfirtöku ríkisins og hvert er það nú?

3. Hvernig hefur ráðherra beitt sér til að tryggja að jafnræðis sé gætt milli kynja í nýju bönkunum hvað varðar stöðuveitingar og launakjör?

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að launakjör bankanna hafa verið með þeim hætti að mönnum blöskrar. Nú nýlega sendi Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, bréf til formanna þingflokka og þar kemur eftirfarandi fram, virðulegur forseti:

„Undanfarnar vikur hafa Jafnréttisstofu borist mörg dæmi um ótrúlegt launamisrétti kynjanna sem viðgengist hefur í nafni launaleyndar innan bankanna þriggja og dótturfyrirtækja þeirra sem nú eru komin í ríkiseigu. Dæmi eru um allt að 100% launamun karls og konu sem unnu hlið við hlið í sama starfi. Þá einkenndist skipulag bankanna af miklum kynjahalla þar sem karlar voru í öllum helstu stjórnunarstöðum. Launakannanir sem gerðar voru á launum í fjármálageiranum sýndu fram á verulegan kynbundinn launamun.“

Svo eru færð rök fyrir því síðar í bréfinu að fyrirhuguð rannsóknarnefnd sem á að kanna aðdragandann að falli bankanna þyrfti að fara ofan í þann mikla launamun sem hefur komið í ljós á milli karla og kvenna innan bankanna. Ég spyr nú hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist bregðast við þessu þar sem bankarnir eru komnir í ríkiseigu og tilheyra núna ábyrgðarsviði hans.

Það hefur líka komið í ljós, virðulegur forseti, að það ríkir mjög mikil þöggun innan bankakerfisins varðandi launakjör þannig að nú verðum við að nýta tækifærið þegar þeir eru komnir í ríkiseigu og taka á þessu vandamáli.

Í lauslegri könnun hjá einum ríkisbankanna sem nú er kominn í eigu okkar allra kemur í ljós að bankastjórinn er kona — sem er vissulega skref fram á við — en af sjö framkvæmdastjórum eru sex karlar og ein kona og af 37 forstöðumönnum eru 30 karlar og sjö konur. Við erum svo langt frá því að hér sé eitthvert jafnræði í stjórnunarstöðum. Þar sem ríkið er ábyrgt í þessari stöðu að mínu mati tel ég að við verðum með einhverjum hætti að beita okkur innan bankanna þannig að við horfum ekki upp á svona skakkar tölur. Það er miklu erfiðara þegar um einkabanka er að ræða og einkafyrirtæki, að sjálfsögðu, en þegar ríkið á í hlut eigum við að bregðast við. Ég vil fá skýr svör frá hæstv. fjármálaráðherra um þetta, bæði launakjörin og líka (Forseti hringir.) stjórnunarstöðurnar.