136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

jafnræði kynja í ríkisbönkum.

126. mál
[14:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessum umræðum. Ég verð að segja eins og er, virðulegur forseti, að ekki var hægt að finna neinn áhuga hjá hæstv. fjármálaráðherra á þessu máli. Þrátt fyrir góðan vilja minn, að reyna að finna þann áhuga, var hann ekki fyrir hendi. Hæstv. fjármálaráðherra vísaði allri ábyrgð af sér.

Í fyrsta lagi vísaði hæstv. ráðherra ábyrgðinni á bankaráðin hvað varðar stöðuveitingarnar og bankastjórana. Hann bætti því við að flokkarnir ættu fulltrúa í bankaráðunum. Þá vitum við það. Næst þarf að fara að elta bankaráðin ef hæstv. fjármálaráðherra vill ekki bera neina ábyrgð á þessu, sem ég tel reyndar að hann eigi að gera.

Varðandi launin þá heyrði ég ekki betur en hæstv. fjármálaráðherra vísaði líka allri ábyrgð af sér í því og ýtti henni yfir á Jafnréttisstofu. Það ber að rifja það upp að í stjórnarsáttmálanum er skýrt ákvæði um launamál kynjanna og að stefna eigi að því að minnka launamuninn þannig að hann sé helmingi minni í lok kjörtímabils en í upphafi. Ég verð að lýsa því að ég er frekar sorgmædd yfir þessu svari.

Ég hefði viljað sjá brattan fjármálaráðherra sem hefði talað þannig að konur eygðu smávon um að ofan frá ætti að reyna að bæta þessa stöðu. Ég ætla að leyfa mér að treysta á konur í stjórnarflokkunum, sem hafa mikinn áhuga á þessum málum eins og við sjáum hér í umræðunum, að þær beiti sér af fullum krafti innan flokka sinna og sýni virkilegan styrk og reyni að bæta úr þannig að konur komist í fleiri áhrifastöður, bæði innan bankanna og innan alls samfélagsins, og að launamuni kynja verði eytt eins hratt og hægt er, (Forseti hringir.) — ég skora á konur að taka hér til hendinni.