136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

143. mál
[15:07]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í starfshópi sem ég skipaði í janúar síðastliðnum þótti nauðsynlegt að kortleggja ítarlega hvað mansal er, umfang þess og ábata, hvernig það fer fram, hvernig það snertir okkur hér, alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir og hvernig stjórnvöld hafa beitt sér á alþjóðavettvangi gegn mansali.

Greinargerð sú sem fylgja mun áætluninni undirbyggir vel þær aðgerðir sem lagðar eru til. Nú er verkið á lokaspretti og verður metnaðarfull og efnismikil tillaga að aðgerðaáætlun sem verður lögð fyrir þingheim innan skamms.

Útgangspunkturinn er að fullgiltur verði svokallaður Palermó-samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi frá árinu 2000 og samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali frá 2005. Undirbúningur hefur staðið alllengi en gert er ráð fyrir að vinnunni ljúki svo fljótt sem verða má. Tillögur að öðrum aðgerðum leiða beinlínis að þeim ásetningi. Í grófum dráttum má skipta þeim í fjóra þætti.

Í fyrsta lagi að komið verði upp teymi sem hafi yfirumsjón með mansalsmálum á Íslandi og sé til þess bært að greina möguleg fórnarlömb mansals samkvæmt viðurkenndum gátlistum, sinni skráningu mála og skipuleggi fræðslu. Greining á mögulegum fórnarlömbum er einkar mikilvæg því hún opnar fyrir aðgang þeirra að margvíslegum úrræðum.

Í öðru lagi að fórnarlömbum verði tryggð aðstoð, öruggt skjól, endurhæfing og eftir atvikum stuðningur til að komast aftur til heimalands síns ef þau kjósa svo en aldrei án þess að öryggi þeirra sé tryggt þar.

Í þriðja lagi eru ráðstafanir til að styrkja lögreglu til að auka líkur á að lögum verði komið yfir gerendur. Liður í þessu er að eftirlit og rannsóknir á brotum gegn 206. gr. almennra hegningarlaga verði stórefldar. Hér er vísað til ákvæðisins um vændi. Því má ekki gleyma að þótt kaup á vændi séu refsilaus samkvæmt núgildandi hegningarlögum er refsivert að skipuleggja vændi, stuðla að því, hafa um það milligöngu eða ábata hvort sem er með auglýsingum eða útleigu húsnæðis, svo dæmi séu tekin. Reynslan bendir til að hlutur þessara brota geti falið í sér mansal. Að mínu viti hefur umræðan um þann eina þátt vændisins sem eru vændiskaupin sjálf verið yfirskipuð, bæði í pólitískri umræðu og hugsanlega einnig hjá lögreglunni sjálfri, en öll þessi tengdu brot eru refsiverð samkvæmt hegningarlögum og ber að rannsaka þau.

Í fjórða lagi eru rannsóknir og upplýsingaherferðir sem beinast gegn kaupendum á kynlífsmarkaði en helsti tilgangur manseljenda í okkar heimshluta er að svara eftirspurn á þeim markaði. Mikilvægt er að grípa snemma inn í gagnvart ungum karlmönnum til að þeir móti sér þá lífsafstöðu að kaupa ekki kynlíf. Umræðan um hvort leggja eigi til að vændiskaup verði refsivert hefur farið fram á vettvangi starfshópsins eins og víðar í samfélaginu, svo sem hér í þessum sal. Er þá gjarnan vísað til jákvæðrar reynslu Svía. Um hana er þó víða deilt. Margt bendir til að Svíar hafi ekki gert nógu ítarlegar rannsóknir á vændi áður en þeir fóru út í breytinguna og því halda margir fram að þeir hafi ekki haft traustan útgangspunkt í rannsóknum til að geta metið áhrifin.

Nú hafa Norðmenn samþykkt að gera kaup á vændi refsiverð. Þeir hafa um nokkurra ára skeið kortlagt ítarlega umfang vændis og tengsl við mansal. Þeir telja sig því í stakk búna til að fylgjast vel með afleiðingunum. Þess vegna verður afar mikilvægt að fylgjast með reynslu þeirra og nú heyrum við að Bretar hyggist fara sömu leið.

Ég vil leggja áherslu á að með rannsóknum verði aflað betri upplýsinga um eðli og umfang vændis hér á landi, kynlífsmarkaðinn og möguleg tengsl við mansal. Ekki síst til að geta metið árangur með traustum hætti ef samþykkt verður að gera kaup á vændi refsiverð, sem við eigum að vinna að. Aðgerðaáætlun gegn mansali verður mikilvægt tæki til að berjast gegn mansali á Íslandi og með henni munum við axla ábyrgðina sem við höfum undirgengist með helstu alþjóðastofnunum sem við eigum aðild að og færa meðferð mála hér á landi til samræmis við framsækna stefnumörkun okkar á alþjóðavettvangi gegn mansali.