136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

143. mál
[15:14]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst sérkennilegt ef hv. þingmenn sem hér hafa talað efast um vilja minn til að gera kaup á vændi refsiverð. Það er nefnd á mínum vegum að vinna að þessu. Ég vil sjá niðurstöður hennar. En það breytir ekki afstöðu minni til málsins en auðvitað vil ég sjá skýrslu nefndarinnar sem ég vænti að komi sem fyrst.

Bretar, Norðmenn og Svíar hafa lögfest þetta og ég óttast að þegar þeir eru komnir með löggjöf sem bannar vændiskaup geti það leitt til þess að vændi aukist hér og jafnvel að kaupendur leiti hingað.

Brýnt er að velta við fleiri áleitnum spurningum og t.d. er mögulegt að kreppan hér á landi sem og annars staðar hafi hugsanlega þau áhrif að fleiri leiðist út í vændi. Allt þetta þurfum við að hafa í huga. Við vitum að miklar efnahagslegar þrengingar og bág staða fjölskyldna getur leitt til þess að bæði vændi og mansal aukist og ég tel aðgerðaáætlun gegn mansali opið úrræði til verndar og aðstoðar fórnarlömbum. Aukinn styrkur lögreglu til að rannsaka brotin sem hún mun fela í sér er nauðsynlegur til að við höfum viðbúnað til þess að bregðast við málunum eins og þau horfa við okkur og metnaður okkar og skuldbindingar standa til.

Þegar spurt er hvort ég ætli að vinna frekari úttektir og rannsóknir á málinu held ég að nefndin hafi unnið mjög yfirgripsmikið starf í þessu efni sem ég vil meta hvort er nægjanlegt. Ég vitnaði hér til Svíanna sem margir teldu að hefðu ekki unnið nægilega vel — eigum við að segja sína heimavinnu? — áður en þetta var lögfest. Norðmenn stóðu öðruvísi að málunum og virðast miklu viðbúnari til að taka á þeim en Svíarnir voru. Nefndin hefur farið í gegnum þetta. Ég bið hv. þingmenn að efast ekki um vilja minn til að gera kaup á vændi refsiverð. En við skulum sjá hvað skýrslan hefur að geyma. (Forseti hringir.)