136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

bifreiðakaupastyrkir til hreyfihamlaðra.

163. mál
[15:20]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn þessi er tvíþætt. Annars vegar er óskað eftir svari við því hver sé stefna ráðherra varðandi hækkun styrkja og hins vegar hver sé stefna ráðherra varðandi niðurfellingu þeirra skilyrða að styrkþegi verði að aka sjálfur og stunda vinnu eða skóla þegar kemur að kaupum á sérútbúinni bifreið vegna mikillar fötlunar. Fjárhæð bifreiðakaupastyrkja til hreyfihamlaðra einstaklinga er 1 millj. kr. Styrkinn er heimilt að veita á fimm ára fresti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda hefur þessi fjárhæð ekki breyst frá árinu 1999 á sama tíma og vísitala neysluverðs hefur hækkað um meira en 60% og því ætti fjárhæð styrksins í dag að nema um 1.600 þús. kr. En eins og hv. fyrirspyrjanda er væntanlega kunnugt hefur Framsóknarflokkurinn lengstum verið við völd í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu frá því að síðasta hækkun var gerð. (Gripið fram í.) Ég spyr hv. fyrirspyrjanda: Hversu oft hefur hann hreyft þessu máli frá 1999 og þann tíma sem Framsóknarflokkurinn hefur farið með það ráðuneyti sem hafði með þessa styrki að gera?

Það var líka spurt um annan þátt eins og ég nefndi í máli mínu. Auk framangreindra styrkja er heimilt að veita styrk sem nemur allt að 50–60% af kaupverði bifreiðar ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Þessir styrkir eru mjög háir á hverju ári en fjárhæð hvers styrks er að jafnaði á bilinu 3–4 millj. kr. Það skilyrði er sett í reglugerðina að umsækjandinn aki sjálfur og þurfi á bifreið að halda til að stunda launaða vinnu eða skóla.

Styrkir til bifreiðakaupa fluttust frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins hinn 1. október síðastliðinn. Það er nú ekki lengra síðan, þegar lög um sjúkratryggingar tóku gildi. Styrkirnir heyrðu áður undir sjúkratryggingar almannatryggingalaga sem eru nú greiddar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð líkt og uppbætur til bifreiðakaupa og uppbætur vegna reksturs bifreiðar.

Um leið og bifreiðakaupastyrkirnir fluttust yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið lét ég hefja undirbúning að breytingum á reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Var ætlunin m.a. að hækka fjárhæð styrkja auk þess að gera aðrar nauðsynlegar breytingar á reglugerðinni og liggur sú reglugerð fyrir í ráðuneytinu.

Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu er ljóst að svigrúm til hækkana eða annarra breytinga á reglugerð um bifreiðamál hreyfihamlaðra sem fela í sér kostnaðarauka er afar takmarkað. Ég mun þó áfram láta vinna í ráðuneyti mínu að því sem snýr að endurskoðun þessarar reglugerðar sem var langt komin, um bifreiðamál hreyfihamlaðra, en árétta að við þær aðstæður sem nú ríkja er erfitt að ná fram miklum hækkunum í einstökum málaflokkum og allt er þetta í ákveðinni biðstöðu í ljósi þess ástands sem nú ríkir.

Það er ákaflega dapurlegt, virðulegi forseti, að Framsóknarflokkurinn hafi ekki aukið fjármagn til þess að hækka bifreiðastyrkina í því góðæri sem ríkt hefur á undanförnum árum. Hér hefur ríkt góðæri í mörg ár og afgangur hefur verið af tekjum ríkissjóðs upp á fleiri tugi milljarða króna. Nú stefnir í fleiri tugi milljarða halla á ríkissjóði og þá kemur þingmaður Framsóknarflokksins fram með þessa fyrirspurn.

Mér finnst, virðulegi forseti, tvískinnungur falinn í þessari fyrirspurn. Ég er þeirrar skoðunar (BJJ: Á ég að draga hana til baka?) — ég spurði hv. þingmann hve oft hann hefði beitt sér fyrir því á þeim árum sem Framsóknarflokkurinn var við stjórn í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og hafði öll tök á því að breyta reglugerðinni. Nægilegt svigrúm var hvað varðar fjármagn svo að þetta mál hefði átt að ná fram að ganga. En það hefur greinilega ekki verið í forgangi hjá Framsóknarflokknum að hækka bifreiðastyrki fatlaðra. Það sannar reynslan.

Mánuði eftir að þessi málaflokkur flyst til félags- og tryggingamálaráðuneytisins er komin fyrirspurn frá hv. þingmanni Framsóknarflokksins um það hvort ekki eigi að fara að breyta þessari reglugerð og hækka bifreiðastyrkina. Ég kalla það tvískinnung, virðulegi forseti.