136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

bifreiðakaupastyrkir til hreyfihamlaðra.

163. mál
[15:25]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir svörin. Ég held að öllum sé ljóst að hér er mál sem núverandi félagsmálaráðherra ber ekki ábyrgð á en hún hefur þó sannarlega tækifæri til að lagfæra það sem vantar upp á.

Í þessu máli er nauðsynlegt að gera tvennt sem ég vil leggja sérstaka áherslu á. Það er í fyrsta lagi að fella út þau skilyrði sem sett eru í reglugerð vegna svokallaðra lyftubíla. Þá á ég við þau skilyrði að viðkomandi einstaklingur verði að aka sjálfur og hann verði að vera annaðhvort í vinnu eða skóla. Þetta er hægt að gera strax og það kostar sáralítið vegna þess að í raun er ekki um svo marga einstaklinga að ræða. En þar sem bíllinn er nauðsynlegt hjálpartæki getur þetta skipt þá einstaklinga öllu máli til þess að lifa sjálfstæðu lífi.

Í öðru lagi þarf að hækka milljón krónu bílastyrkinn en hann hefur verið óbreyttur eins og hér hefur komið fram í níu ár. Vísitalan hefur hækkað um 60% (Forseti hringir.) á því tímabili. Ég vil sem sagt, hæstv. forseti, hvetja ráðherra til að leita leiða til (Forseti hringir.) að lagfæra þetta.