136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

bifreiðakaupastyrkir til hreyfihamlaðra.

163. mál
[15:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að snupra hv. þingmann fyrir að hreyfa þessu máli hér nú. Ég er að snupra hv. þingmann fyrir þann tvískinnung sem hann sýnir, að hafa ekki á þeim átta árum sem Framsóknarflokkurinn fór með heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið, þar sem þessi málaflokkur var staðsettur — að hann hafi ekki komið fram með þetta áður. (BJJ: Ég hef oft komið með þetta fram áður.)

Ég fór yfir fyrirspurnir sem hafa verið fluttar um þetta mál alveg frá 1999 og þar fundust tvær fyrirspurnir um málið og þær voru frá Ástu R. Jóhannesdóttur, ekki frá hv. þingmanni. Mér er mjög ofarlega í huga að leysa þetta verkefni og gera það sem fyrst.

Eins og ég nefndi áðan var það eitt af fyrstu verkefnunum sem ég fór í eftir að bifreiðamál fatlaðra fluttust til félagsmálaráðuneytisins að skoða hvernig ég gæti það. Ég nefndi að málið væri í biðstöðu af því að fjármagn vantaði en ég heyri að ég hef liðsstyrk hér frá formanni þingflokks sjálfstæðismanna í þessu efni. Hv. þingmaður sagði að ég bæri ekki ábyrgðina. Þetta mál er komið yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins þannig að ég ber ábyrgð á því. (ArnbS: Ekki á fortíðinni.) Ekki á fortíðinni. Nei, ég veit það, en á málaflokknum núna.

Ég mun skoða það, ef ég er með öruggan liðsstyrk frá Sjálfstæðisflokknum, í þessu hvort ekki sé rétt að ég láti klára þessa reglugerð og fara með hana fyrir ríkisstjórn. Ríkisstjórnin þarf að samþykkja þetta mál af því þetta ber kostnaðarauka í för með sér.

Ég er alveg sammála þeim viðbótum sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir kom með hér líka og skal láta skoða það í þessari reglugerð. En ekki stendur á mér að undirrita þessa reglugerð ef um það næst samstaða.

En ég ítreka það, virðulegi forseti, að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefði átt að koma hér fyrir nokkrum árum og flytja þetta mál og sjá til þess að samstarfsmenn hans í Framsóknarflokknum og í ríkisstjórn legðu áherslu á þessi mál (Forseti hringir.) í því góðæri sem ríkti meðan Framsóknarflokkurinn var við stjórn.