136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

10% niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[10:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Bara svo að því sé til haga haldið er allt rangt hér sem kemur fram hjá þingmanninum. Hér er um tvö algjörlega aðskilin mál að ræða. Það sem hefur verið rætt og skoðað, og ég held að þingheimur hljóti að vera sammála um, er að menn hafa verið búnir að skoða sjúkrahúsin á stór-höfuðborgarsvæðinu, svokölluð kragasjúkrahús, þ.e. Suðurnesin, Selfoss, St. Jósefsspítala og Akranes, ásamt Landspítalanum og hvernig við getum best komið málum þannig fyrir að við fáum sem mesta þjónustu fyrir þá fjármuni sem við erum með. Það er það sem menn hafa rætt.

Þau bréf sem voru send út þar sem beðið var um hugmyndir frá forstöðumönnum um sparnað eru bara allt annað. Eins og margoft hefur komið fram verður ekki dregið saman í ríkisútgjöldum á þessu sviði með flötum niðurskurði ef það kemur til þess að við þurfum að draga saman, það er alveg ljóst. Það liggur fyrir að ekki er vilji til neins annars en að sjá til þess að það sé rétt gefið þegar (Forseti hringir.) kemur að heilbrigðisstofnunum, en ég endurtek að ég býð þingmönnum í öllum flokkum (Forseti hringir.) að kynna sér þau módel sem eru til staðar þannig að við getum þá farið yfir þetta saman (Forseti hringir.) og menn viti alveg nákvæmlega hvað þeir eru að tala um þegar þeir koma hér í þingsalinn.