136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

endurhverf viðskipti.

[10:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er um heimatilbúinn vanda að ræða. Ef neyðarlögin hefðu ekki verið sett væru fjármálafyrirtækin hin smærri einfaldlega ekki í þeim vanda sem þau glíma við akkúrat núna. Ég fagna þeim orðum hæstv. fjármálaráðherra að hann telji möguleika á því að ríkisvaldið komi að með einum eða öðrum hætti og ég segi fyrir minn part að það er afar mikilvægt að svo verði.

Auðvitað held ég að allir vilji bera ábyrgð og muni bera ábyrgð á sínum eigin viðskiptum, en við verðum samt að hafa í huga að þær reglur sem voru hér um að það þyrfti að vera milliliður frá Seðlabankanum í gegnum hin smærri fjármálafyrirtæki til viðskiptabankanna eru mjög sérstakar (Forseti hringir.) og þekkjast ekki í hinum vestræna heimi mér vitanlega þannig að ég brýni enn og aftur fyrir (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra að beita sér í þessu máli.