136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[11:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það heitir óheftur kapítalismi og hefur verið á dagskrá ríkisstjórna undangenginna ára. Ég var að reyna að leiða rök að því og get gert það í lengra máli hér á eftir eða síðar og hef gert það öðru hvoru á undanförnum árum að markaðsöflunum hafi verið gefinn of laus taumur. Fjármálakerfinu hafi ekki verið settar nægilegar skorður í lögum og reglum og ég get vísað í frumvörp sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sett fram í þá veru. Aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða eru dæmi um þetta.

Ástæðan fyrir því að við vorum andvíg því á sínum tíma að einkavæða allt fjármálakerfið á einu bretti var sú að við töldum að í okkar agnarsmáa hagkerfi væri sú hætta fyrir hendi að sömu aðilar og ráða yfir atvinnulífinu eignuðust fjármálastofnanir landsins þannig að þeir lánuðu sjálfum sér. Þau varnaðarorð reyndust á rökum reist.

Þetta hefur ekki gagnast öllu viðskiptalífinu heldur sett það allt saman á skjön. Það hefur þjónað afmörkuðum, takmörkuðum hagsmunum sem stjórnvöld í blindni sinni eða ákefð við að fylgja tiltekinni stjórnmálakreddu, stjórnmálastefnu, hafa ekki gætt nógu vel að. Það er fyrst og fremst þetta sem ég á við.

Ég hef staðið nokkrum sinnum í ræðustól á undanförnum árum og talað um þetta. Á hvern hátt þær ríkisstjórnir sem hér hafa setið allar götur frá (Forseti hringir.) 1991 hafa staðið vaktina fyrir tiltekinn hluta (Forseti hringir.) viðskiptalífsins, fyrir fjármálaöflin í landinu, á kostnað almennings og viðskiptalífsins (Forseti hringir.) að öðru leyti.