136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[11:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns Ögmundar Jónassonar um frumvarpið sem formenn allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi ásamt hæstv. forseta Alþingis flytja um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna. Ég heyrði að hv. þingmaður lagði mikla áherslu á að allar staðreyndir málsins yrðu lagðar á borðið. Allt yrði rannsakað og hann ítrekaði þau sjónarmið sín með því að lýsa yfir að hann og við sem hér erum og allir í þjóðfélaginu ættu rétt á svörum við þeim spurningum sem vaknað hafa. Ég er sammála hv. þingmanni um það. Ég er sammála því að íslenska þjóðin á rétt á svörum við spurningum um hvað leiddi til þess að íslenska fjármálakerfið féll.

Eins og frumvarpið er úr garði gert er nefndinni sem skipuð verður ætlað að svara spurningunum. Það kemur fram í 1. tölulið 1. gr. að henni er ætlað að varpa sem skýrustu ljósi á orsakir og aðdraganda þess að fjármálakerfið féll. Ég tel að með frumvarpinu sé komið til móts við óskir sem uppi eru í þjóðfélaginu um þetta.

Ég leyfi mér að fullyrða að sjaldan eða aldrei hefur verið lögð fram tillaga á Alþingi sem mælir fyrir um jafnvíðtæka rannsókn á þessum málum og hér er gert. Því fagna ég. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Ögmundur Jónasson geri það líka þrátt fyrir að mér hafi nú fundist skorta dálítið á sannfæringu hans í ræðunni sem hann hélt fyrir málinu. En ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sömu skoðunar og ég (Forseti hringir.) að með frumvarpinu sé að fullu komið til móts við þær kröfur sem uppi eru í þjóðfélaginu um að fall fjármálakerfisins (Forseti hringir.) verði rannsakað.