136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[11:45]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson séum loksins sammála hér í þingsalnum um þau frumvörp sem til umræðu eru. Ég get ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að með þeim sé verið að koma til móts við þær kröfur og óskir sem uppi hafa verið í þjóðfélaginu um að hrun fjármálakerfisins verði rannsakað að fullu og við höfum svo sem orðið vitni að því í mótmælum víðs vegar um þjóðfélagið, ekki síst fyrir utan Alþingishúsið, að fólk krefst þess að þessi mál séu rannsökuð.

Ég tel að í frumvarpinu sé þessum málum mjög vel fyrirkomið. Það verður skipuð nefnd með valinkunnum mönnum sem getur leitað sér sérfræðilegrar aðstoðar frá innlendum og erlendum aðilum til þess að leggja mat á einstaka þætti rannsóknarinnar. Ég fagna því að þingmenn Vinstri grænna séu samþykkir þeirri leið sem hér er farin og ég get ekki litið öðruvísi á en að yfirlýsingar Ögmundar Jónassonar hér í ræðustól Alþingis styrki þá trú okkar að hér sé komið til móts við þær kröfur sem m.a. hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur sett fram um að þessi mál verði rannsökuð.

Ég fagna því og ég geri ráð fyrir að sá stuðningur sem fram kom í máli hv. þingmanns við þetta mál geri það að verkum að hægt verði að afgreiða það með sem skjótustum hætti héðan frá Alþingi til þess að sú nefnd sem frumvarpið kveður á um geti hafist handa við þá vinnu sem fram undan er því viðfangsefnin eru bæði brýn og gríðarlega víðtæk.