136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum í sjálfu sér búin að greiða úr þessari flækju en ég ítreka að ég held að það skipti máli hvort það er forsætisnefnd sem skipar þennan hóp eða hvort hann er vinnuhópur á forræði yfirnefndarinnar. Ég tel að það sé mikilvægt að hann sé vinnuhópur á forræði yfirnefndarinnar því að ég held að yfirnefndin eigi að hafa alla þræði málsins í hendi sér. Hún mun setja fram heildstæða skýrslu og mér finnst ekki rétt að einhverjir aðrir beri ábyrgð á einhverjum hluta myndarinnar þar. Yfirnefndin á að bera ábyrgð á heildarmyndinni, mér finnst það skipta miklu máli.

Ég ítreka aftur að þarna eru fjölmörg álitamál sem eru ekki endilega lagalegs eðlis og það er svo margt í uppbyggingunni á markaðnum og í siðferðilegum álitaefnum — og nú ítreka ég aftur að mér finnst líka frumvarpstextinn of þröngur hvað það varðar að horfa bara til siðferðilegra álitaefna í fjármálalífi, það á líka að horfa til opinberrar stjórnsýslu og stjórnmálalífsins. Það er ekki bara í fjármálalífinu sem eitthvað kann að hafa verið ámælisvert í starfsháttum eða siðferðilegri framgöngu. Þess vegna teldi ég mikilvægt að þétta umgjörðina með þessum hætti, það mundi verða til að styrkja málið og tryggja enn frekar að þegar skýrslan kemur sé hún heildstæð og eðlilegt vægi sé milli ólíkra þátta, að vægi lagaþáttarins verði kannski ekki of ríkt og of lítið horft til siðferðilega þáttarins eða öfugt.