136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta Alþingis og formönnum stjórnarflokkanna fyrir það vandaða mál sem hér hefur litið dagsins ljós, að ég vil leyfa mér að segja á býsna skömmum tíma frá því að þessir atburðir urðu — þegar haft er í huga hversu mikilvægt er að vanda til verks í því að skrifa málið því að það sem rannsakað verður er náttúrlega það sem sagt verður fyrir um í þessum texta og mikilvægt að allsherjarnefnd fari vel yfir þann texta á milli umræðna. Ég óska þeim góðs gengis við þá yfirferð. Ég held að engum blandist hugur um að beðið er eftir því að þessi rannsókn hefjist. Það er beðið eftir því úti í samfélaginu og það fór ekki fram hjá neinum á borgarafundinum, sem meiri hluti þingheims sótti á mánudagskvöldið var, að mikil óþreyja er og tortryggni og efasemdir vegna þess dráttar sem fólki þykir hafa orðið á málinu. Því er brýnt að afgreiðslu þess verði heldur flýtt í gegnum þingið en um leið er mikilvægt að það verði ekki á kostnað vandaðrar málsmeðferðar.

Vegna ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur vildi ég byrja á að taka undir með hv þingmanni: Höfuðorsök alls þess sem hér er um fjallað er aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar rannsóknin sem við hér fjöllum um hefur farið fram, og aðrar rannsóknir, saksóknir, fjölmiðlaumfjöllun og þjóðfélagsumræða í ár og áratugi, mun trúlega að endingu standa í sögubókunum eitthvað á þá leið — þegar persónurnar eru fallnar í skuggann og ávirðingarnar á einstaklinga o.s.frv. — að árið 1994 hafi Ísland, 300 þúsund manna land, gert tilraun til að verða hluti af og eiga viðskipti á 500 milljóna manna markaði án þess að eiga aðild að þeim félagslegu stofnunum sem skipulagðar hafa verið yfir þeim markaði, þ.e. Evrópuþinginu, ráðherranefndinni, Evrópska seðlabankanum, myntsamfélaginu o.s.frv. Það hafi gengið ágætlega í 14 ár en þegar markaðsbrestur hafi orðið, bæði á Evrópska efnahagssvæðinu og í heiminum öllum, hafi þessi litla þjóð reynst vanbúin að glíma við afleiðingar þess. Út af fyrir sig getum við sagt okkur það sjálf að það hafi kannski verið óhófleg íslensk bjartsýni að 300 þúsund manna þjóð gæti með fullnægjandi hætti haldið uppi eftirliti, aðhaldi og ekki síst bakstuðningi fyrir risavaxin alþjóðafyrirtæki sem starfa á 500 milljóna manna markaði, en það er hluti af annarri umræðu.

Það sem við ræðum hér er rannsóknin á hruninu og það er í sjálfu sér ekki í fyrsta sinn sem við rannsökum þá sögu í þinginu. Ég tel mikilvægt að halda því til haga í umræðunni að þættir af þessari sögu hafa áður verið rannsakaðir á vegum Alþingis og á Alþingi. Ég vísa í því efni til úttektar Ríkisendurskoðunar á einkavæðingu bankanna á sínum tíma en aðferðafræðin sem beitt var við einkavæðinguna var sem kunnugt er ákaflega umdeild og ýmsir urðu til að halda því fram að þar megi finna eina af rótum þess vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Eftir að þær úttektir höfðu verið unnar af hálfu Ríkisendurskoðunar efndi fjárlaganefnd Alþingis á liðnu kjörtímabili, 2003–2007, til rannsóknar, aðallega á einkavæðingu Búnaðarbankans, og leitaði eftir upplýsingum um fjöldamargt sem það snerti. Er óhætt að segja að ýmislegt þar þótti bæði óljóst og annað orkaði tvímælis og er gott að nú sé sett af stað rannsókn sem fari betur og gleggra yfir þetta en fjárlaganefnd var á sínum tíma í stakk búin til að gera.

Ég hef í umræðum í þinginu síðustu daga fjallað nokkuð um það hvaða gögn verði undir í rannsóknum, bæði þeirrar rannsóknarnefndar sem við erum að fjalla um og eins að hvaða gögnum hinn sérstaki saksóknari, sem skipaður verður, muni hafa aðgang. Það geri ég vegna þess að nú berast okkur fréttir af því að eitt af útibúum íslensku viðskiptabankanna erlendis hefur verið selt og unnið er að sölu annarra. Þá er mikilvægt að við tryggjum það áður en við látum þessi útibú af hendi, — sem hefur komið í ljós að voru rekin á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda — undan íslenskum yfirráðum og til erlendra eigenda, hafi tryggilega verið tekin afrit af viðskiptasögu og gögnum þar. Ef rannsóknarhagsmunir þeirrar nefndar sem við nú fjöllum um, eða hins sérstaka saksóknara — eða af einhverjum öðrum ástæðum eftir 10 ár, 15 ár eða 20 ár — kalla á það að kanna hvaða aðgerðir hafi verið gerðar í gegnum eitthvert tiltekið bankaútibú í Lúxemborg eða Guernsey, eða hvað þær nú heita þessar eyjar og þessir staðir, eiga þau gögn að vera tiltæk íslenskum yfirvöldum. Við eigum ekki að þurfa að sækja þau til yfirvalda annarra ríkja og eiga undir þeim hvort við fáum aðgang að þeim gögnum og þessari sögu sem hefur varðað okkur og samfélag okkar svona miklu. Ég er ekki að tala um að bankaleynd sé aflétt eða annað þess háttar, einfaldlega að gögnin séu tiltæk þannig að ef á þarf að halda séum við ekki búin að selja útibúin frá okkur með gögnunum og sögunni sem getur skipt okkur miklu máli.

Um leið og við hljótum að fagna því að skipuð sé rannsóknarnefnd og lagt í það að fara í þessa vinnu — ég treysti því að verulegt fjármagn verði lagt í það — er ljóst að rannsókn af þessu tagi getur orðið gríðarlega kostnaðarsöm og full ástæða til að orðum okkar sé fylgt eftir með fjármunum og fjárveitingum til að tryggja að sem best verði unnið að málinu. Ég held hins vegar að við þurfum að varast þá hugsun að þar með sé málið leyst, að út úr þessu munum við fá sannleika eða réttlæti. Þannig verður það ekki. Við fáum álit á því sem gerst hefur, álit að bestu manna yfirsýn og er óskandi að sem víðtækust sátt verði um niðurstöður rannsóknarinnar þegar hún kemur fram. Þau mál sem við fjöllum hér um eru hins vegar allt of umfangsmikil og á þeim eru allt of margar hliðar til að nokkrar líkur séu á því að um þau sé einhver einn sannleikur á endanum. Um leið og það er mikilvægt að ríkið hafi forgöngu um eina yfirgripsmikla og ítarlega rannsókn þurfum við í kjölfar þess að huga að því hvernig tryggja megi ræðumönnum, rannsakendum, rannsóknarblaðamönnum, en aðallega fræðimönnum úr öllum geirum, aðgang að sem mestu af þeim gögnum sem varða þessa miklu sögu. Það mál sem hér er undir er hið stóra mál okkar kynslóðar. Skjölin í bönkunum og í stjórnkerfinu víðs vegar eru leyndarskjölin okkar. Það er alþekkt, bæði hjá okkur á Íslandi og eins víða um heim, að þegar þjóðir gera upp og vinna úr stórum umdeildum málum beita menn þeirri aðgerð að veita aðgang að þeim gögnum sem málið varða, auðvitað takmarkaðan aðgang, hugsanlega ópersónugreinanlegan aðgang, aðgang sem tryggir að sá þáttur bankaleyndarinnar sem varðar friðhelgi einkalífs sé tryggilega virtur. Sá aðgangur á ekki að verða til að auka á slúður eða óstaðfestan söguburð í samfélaginu en engu að síður gefa þeim fjölmörgu fræðimönnum sem í samfélaginu starfa tækifæri til að rannsaka með ýmsum hætti og á ólíkum forsendum það sem gerst hefur og miðla niðurstöðum af rannsóknum sínum til okkar svo að við fáum margar hliðar á því sem gerst hefur, ólík sjónarhorn, og til að við getum í frjálsri samkeppni hugmynda vegið og metið þær niðurstöður og notað í því starfi sem fram undan er, að byggja hið nýja Ísland — í því að betrumbæta samfélag okkar, gera breytingar í stjórnkerfinu, á skipulagi markaðarins, siðferði okkar eða hvað það nú er.

Slíkur aðgangur er forsenda þess að við getum leitast við að tæma umræðuna um þetta mál. Ekki verður fram hjá því horft að ríkisvaldið er aðili málsins og að sú rannsókn sem við beitum okkur fyrir á okkar vegum verður aldrei fyllilega hafin yfir efasemdir. Sem betur fer verða aðrar skoðanir og önnur sjónarmið og það er mikilvægt að þeir sem önnur sjónarmið hafa uppi um þetta, þeir sem efasemdir hafa um þær niðurstöður sem ríkið kemst að á sínum vegum, hafi aðgang að þeim upplýsingum sem til staðar eru þannig að þeir geti með sjálfstæðum hætti kannað og rannsakað þau mál sem hér eru. Upplýsingar, virðulegi forseti, eru vald og það er mikilvægt að við dreifum valdi með því að veita sem flestum aðgang að upplýsingunum, auðvitað innan skynsamlegra marka þannig að við tryggjum friðhelgi einkalífsins. En ég held að best væri — fyrir utan hinn sérstaka saksóknara og fyrir utan þessa rannsóknarnefnd, sem auðvitað mun leiða langmest í ljós, því að hún mun hafa aðstöðuna og mannaflann til þess — að opna líka fyrir aðgang fræðimanna að gögnum málsins til að rannsaka það sem gerst hefur. Við þurfum enn að bæta það ferli sem við höfum nú sett af stað í því að reyna að skapa sátt um og læra af því sem gerst hefur.