136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi þáttur ræðu minnar var nú fyrst og fremst viðbrögð við ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur en ég get skýrt hann nánar fyrir þingmanninum.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu sé eina lausnin á lífsgátunni. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að annaðhvort sé Ísland eyja og standi utan hins 500 milljóna manna markaðar og flytji þá einfaldlega vörur sínar inn á aðra markaði eftir tollasamþykktum þeirra o.s.frv. eða að landið sé fullgildur aðili að þessum stóra markaði, að þeirri mynt sem þjónar þar, eigi bakstuðning evrópska seðlabankans og taki þátt í öllu leiðinlega skrifræðinu í Brussel. Ég er þeirrar skoðunar vegna þess að ég er félagshyggjumaður og ég veit að með reglubundnum hætti bresta markaðir. Og vegna þess að markaðir bresta hafa menn komið á fót félagslegum stofnunum til þess að hafa félagslegan styrk hver af öðrum til þess að geta veitt hver öðrum lið þegar á reynir.

Ég held að það sýni sig svo ekki verður um villst að það sem okkur skorti þegar markaðurinn brast var allur sá bakstuðningur að stórri mynt, að evrópskum seðlabanka, að skrifræðinu í Brussel o.s.frv. Þess vegna er lausnin á þessu ekki ein frekar en annað. En ég held að það sé ekki til farsældar fallið að spila á 500 milljóna markaði en vera ekki hluti af hinu félagslega kerfi sem byggt hefur verið ofan á hann til þess að verja fólk og samfélög þeirra fyrir áföllum af þessu tagi.