136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða og ég segi nú bara: Loksins, loksins.

Þegar áfallið dundi yfir í byrjun október sagði ég að nú væri mikilvægt að allir legðust á árarnar og reru í gegnum brimskaflinn og frestuðu rannsókn og öðru slíku þar til við værum komin í gegn. Við settum lög til að bjarga heimilunum með greiðslukerfi bankanna, við settum lög til að bjarga innstæðum og þar með heimilunum og það tókst. Við björguðum ekki bönkunum, þeir fóru á hausinn og það er alrangt að við höfum staðið hér til að bjarga bönkunum, þeir fóru á hausinn og hluthafarnir töpuðu öllu sínu. Nú tel ég að við séum komin í gegnum brimskaflinn og hef reyndar talið í tvær til þrjár vikur að þetta frumvarp mætti koma fram. Það er loksins komið fram og nú ætlum við að fara að skoða hvað gerðist.

Í fyrsta lagi varðandi vinnslu á þessu frumvarpi, það kom til tals að keyra það í gegnum Alþingi í dag af því að það liggur á. Þá komu önnur sjónarmið, þau að þá geti það ekki unnist í nefnd, þá komi ekki gestir að því o.s.frv. þannig að það sjónarmið varð ofan á að fresta gildistöku laganna um einhverja daga, kannski í nærri viku til að aðrir geti komið að því og komið með hugmyndir inn í þetta mál. Ég met það meira en að fá það strax í gegn þó að hraðinn sé líka mjög mikilvægur vegna þess að gögnin eru hugsanlega að eyðast.

Þetta voru mjög örlagaríkir atburðir sem gerðust og þeir stafa af því — ég fer betur í það á eftir — að það var óstöðugt ástand, það voru innri veikleikar í kerfinu og bankarnir voru orðnir allt of stórir. Af þessu þurfum við að læra. Við þurfum að læra af þessu og rannsaka hvað fór úrskeiðis, hvað olli þessu, hvað gerðist. Þetta eru mistök í lagasetningu og Alþingi verður að horfa í eigin barm. Þetta eru mistök í regluverki, reglugerðum, þetta eru mistök í framkvæmd og þetta eru mistök í eftirliti. Sumt af þessu er af erlendum uppruna, annað er innlent og sumt af þessu er hreinlega regluverk Evrópusambandsins sem hefur komið í ljós að er meingallað, frú forseti. (Gripið fram í.) Við höfðum ekki frjálst flæði fjármagns áður. (Gripið fram í.) Nei, nei, þess vegna þurftum við ekki að borga neina Icesave-reikninga á þeim tíma. (Gripið fram í.) Frú forseti. Ég ætla að halda ræðu en ekki standa í samtali.

(Forseti (ÞBack): Ég bið þingmenn að gefa hv. ræðumanni hljóð.)

Það sem við ætlum að gera er að rannsaka þessi mistök í lagasetningu, framkvæmd og regluverki en við ætlum líka að kanna lögbrot sem hugsanlega hafa átt sér stað og ýmislegt sem hefur greinilega gerst í þessu. Því verður vísað til sérstaks saksóknara samkvæmt frumvarpi á þskj. 156, máli 141, sem er núna til skoðunar í allsherjarnefnd. Vonandi verður það líka afgreitt sem allra fyrst.

Ég er mjög ánægður með það hvernig niðurstaðan varð með skipun þessarar nefndar. Það hefði ekki verið góður bragur á því ef framkvæmdarvaldið hefði farið að rannsaka sjálft sig, heldur ekki ef löggjafarvaldið hefði farið að rannsaka sjálft sig því að sumt af þessu er mistök löggjafarvaldsins. Mér finnst þessi skipan eiginlega sú albesta sem var til í stöðunni.

Varðandi rannsóknina hefur sú hugmynd komið fram utan úr bæ, og ég vil koma henni á framfæri, að rannsóknin verði boðin út í þeim skilningi að færustu prófessorum í heimi verði boðið að rannsaka, t.d. í Harvard eða Princeton. Þeim verði boðið að rannsaka þetta á eigin kostnað, þeir fjármagni þá rannsóknina en í staðinn fái þeir gögnin og geti lært heilmikið af þessu mikla falli á Íslandi því að ég hygg að vandamál heimsins kristallist að einhverju leyti í vandamálunum hér á landi. Við urðum fyrir áfallinu sem allir hinir geta lent í líka þannig að það er mjög lærdómsríkt fyrir allan heiminn að læra af því sem gerðist hérna, sérstaklega þeim atriðum sem ég fer í á eftir sem eru alþjóðleg. Þau eru ekki íslensk. Þarna gætum við hugsanlega fengið upp í gífurlegan kostnað af rannsókninni. Ég vil taka fram að það er ekki kostnaðarmat á þessu, enda sennilega ekki hægt. Þeir eru ekki ódýrir, þeir sérfræðingar sem þurfa að vinna þetta, og með því að bjóða þetta út væru prófessorar við Princeton, Harvard og fleiri háskóla, sem sæju hugsanlega Nóbelsverðlaun í kjölfarið, kannski tilbúnir til að leggja með sér fé til rannsóknarinnar. Þetta held ég að menn ættu að skoða í þessari nefnd og í meðförum nefndarinnar ættu þeir líka að skoða hvort þetta sé ekki örugglega í 4. gr. frumvarpsins.

Svo vil ég gjarnan koma inn á sannleikann. Þetta er dálítið erfitt orð, þ.e. að nefndin eigi að leita sannleikans. Ég ætla að vona að hún finni hann ekki. Það fólk sem leitar sannleikans er gott og gegnt fólk um allan heim, þeir sem hins vegar hafa fundið hann eru stórhættulegt fólk. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar sagði má þetta ekki verða endanleg niðurstaða. Menn mega ekki hafa fundið sannleikann og sagt: Nú er þetta afgreitt mál. Það eru mörg sjónarmið sem verða eftir sem áður opin og það á eftir að skoðast í marga áratugi hvað eiginlega gerðist. Og þó að þessi nefnd skili einhverri skýrslu má það ekki verða hinn endanlegi sannleikur og ég reikna ekki með að nokkrum manni detti það í hug.

Ég mundi vilja koma einni ábendingu til hv. allsherjarnefndar sem fær málið til umsagnar. Í 4. lið 1. gr. stendur: „Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera íslenskt fjármálakerfi færara um að bregðast við þróun og breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.“ Þar mundi ég segja: „… innan lands sem erlendis“. Nefndin á líka að koma með tillögur að breytingum á regluverki erlendis. Það er nefnilega heilmikið að í heiminum. Þess vegna skjögrar heimurinn núna í miklum vandræðum.

Ég ætla að fara í gegnum þessi atriði sem ég tel að hafi farið úrskeiðis en þau eru örugglega miklu fleiri. Ég er með 10 atriði.

1. Íbúðalánasjóður. Hann lánaði í gegnum sparisjóðina með því að kaupa bréf af sparisjóðunum án takmarkana og ekki til húsnæðiskaupa. Hann fór út fyrir verksvið sitt með því að lána með ríkisábyrgð í gegnum aðra banka. Hann lánaði þeim með því að kaupa skuldabréf og ekki til íbúðakaupa, án skilyrða og án hámarka. Þetta held ég að hafi verið mjög hættulegt og á þetta hefur verið bent, þetta hækkaði íbúðaverð enn frekar og olli miklum vandræðum.

2. Jöklabréfin. Það er innlent vandamál, það er peningastjórnun, það er eitthvað að. Þegar vaxtamunurinn var svona mikill á milli íslensku krónunnar og jensins runnu menn auðvitað á bragðið og bjuggu til peningamaskínu. Á þetta var bent á Alþingi aftur og aftur, ég gerði það og eins hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, þannig að þetta er peningamaskína sem lokkaði til sín erlent fjármagn sem dældist inn í efnahagslífið, styrkti krónuna, lækkaði verð á erlendum vörum og jók eftirspurn upp úr öllu valdi þó að háir vextir eigi að takmarka eftirspurn. Kerfið vann á móti sjálfu sér. Þetta þarf að skoða.

3. Lækkun skatta. Hún kann að hafa kynt undir verðbólgu, ég skal ekki fullyrða um það. Þetta þarf að skoða.

4. Gagnkvæmt eignarhald. Það er alþjóðlegt vandamál en var sérstaklega sterkt hérna. Nú get ég nefnt gagnkvæmt eignarhald á milli Existu og Kaupþings á tímabili af því að bæði félögin eru horfin af markaði. Þetta gagnkvæma eignarhald bjó til fjármagn sem ekki var til nema í bókunum. Það hreinlega bjó til fjármagn, bjó líka til völd og bjó til arð. Um þetta var fjallað á sérstökum fundi í efnahags- og skattanefnd fyrir 2–3 árum þar sem ég talaði um gagnkvæmt eignarhald. Enginn virðist hafa kveikt á því. Þar er verið að búa til fé sem hægt er að taka lán út á. Þetta er um allan heim, þetta er mjög víðtækt í Þýskalandi, Japan og víðar og þetta þarf að laga einhvern veginn, t.d. með því að taka upp hvít-félög og svört-félög, hvít-félög sem upplýsa um allan eignastrúktúrinn upp á við eða niður á við af því að þau ráða hvað þau kaupa en ekki hverjir kaupa í þeim. Menn þurfa að hugleiða þetta einhvern veginn.

5. Kaup starfsmanna á hlutabréfum, með veði í hlutabréfunum sjálfum án áhættu. Það bjó líka til fjármagn. Þetta kom inn í fyrirtækin sem eigið fé og blés út efnahagsreikninginn og fyrirtækin gátu tekið lán út á þetta. Þetta voru tugir milljarða, peningar sem ekki voru til. Það er ýmislegt að. Þetta er líka alþjóðlegt vandamál.

6. Innlánstryggingar banka. Það er þekkt að þær auka gífurlega peningamagnið í umferð. 10% bindiskylda tífaldar útlánagetu, ef einhver maður leggur inn 10 kr. er upphæðin tífölduð upp í hundraðkall í útlánagetu bankans af því að peningurinn fer aftur og aftur inn í bankann. Þetta þarf að takmarka með stóraukinni bindiskyldu um allan heim þannig að bankarnir þurfa að skoða það líka að bankakerfið sé ekki að spóla upp peningamagnið.

7. Lán til stórra hluthafa. Það er eitthvað sem þarf að skoða alveg í fullri alvöru. Það þarf að skoða þegar bankarnir eru að lána eigin hluthöfum beint eða óbeint, eða gagnkvæmt á milli banka. Þetta þarf allt að skoða því að þetta býr til peninga í kerfinu. Bankinn lánar einhverjum hlutafélögum sem kaupa hlutabréfin í bankanum, þetta fer í hring. Það gengur ekki. Auk þess er það mjög óeðlilegt og ósanngjarnt gagnvart smærri hluthöfum sem ekki komast í þessa stöðu.

8. Alþjóðlegt fjármagnsflæði og skyndilegur skortur. Það er nokkuð sem allur heimurinn glímir við. Fyrir 4, 5 eða 6 árum myndaðist allt í einu geysilega mikið framboð af peningum, sennilega vegna mikils hagnaðar fyrirtækja sem fluttu framleiðsluna til Kína og Indlands og nýttu sér mjög lág laun. Gífurlegur hagnaður varð í þeim rekstri og sá hagnaður kom inn í alþjóðlegt peningakerfi, jók framboð af peningum, stórlækkaði vexti og menn fóru að leita út um allt að fjármögnunarleiðum. Áhættufælnin minnkaði og minnkaði, þ.e. menn tóku alltaf stærri og stærri áhættu. Þetta kom t.d. í ljós í sambandi við skuldabréfavafninga í Bandaríkjunum sem fóru á hausinn. Þetta kom líka í ljós í því að íslenskir útrásarmenn gátu keypt fyrirtæki um allan heim, um alla Evrópu með miklu lánsfé og á lágum vöxtum. Þegar vextirnir hækkuðu, þegar Kínverjar fóru að neyta sjálfir, fóru að borða eins og ég kalla það, fóru að kaupa olíu og annað slíkt og lífskjör þeirra bötnuðu minnkaði þessi hagnaður og vextirnir hækkuðu um allan heim. Fjárfestingar sem höfðu verið arðbærar þangað til vegna þess að vextirnir voru lágir voru það ekki lengur og fyrirtækin fóru að rúlla úti um allt. Þetta er ein ástæðan fyrir öllum þessum vandamálum. En þetta er alþjóðlegt vandamál líka og menn gætu dregið lærdóm af því.

9. Stóraukin áhættutaka. Hún er afleiðing af þessu og hún er líka alþjóðleg. Það var ekki einleikið hvað menn tóku mikla áhættu. Ég benti á það þegar FL Group keypti í bandaríska flugfélaginu, það var alveg óskapleg áhætta og félagið tók til þess lán, eða í Dresdner Bank þegar fyrirtækið keypti þar. Það er líka eitthvað sem átti að klingja bjöllum um allt. Ég benti á það. Menn tóku samt þessa áhættu og sífellt stærri og stærri og gjaldþrotafræðin segja að þeir sem taka stærri og stærri áhættu fari á hausinn, bara spurning um tíma, hvenær.

10. Of mikil eyðsla og of lítill peningasparnaður á Íslandi. Það er alveg ótrúlegt. Þetta er íslenskt vandamál, ótrúlegt hvað þjóðin eyðir. Það er alveg með ólíkindum hvað menn leyfa sér að eyða langt umfram efni, kaupa t.d. jeppa upp á 5–6 milljónir með 90% lánum. Maður horfir bara gáttaður á þetta, alveg gáttaður. Hvernig ætlar fólkið að borga þetta? Lánum var haldið að fólki. Elskan mín, kauptu þér þennan bíl, helst dýrari o.s.frv. og kauptu þér flatskjá, farðu svo til útlanda og leiktu þér allan daginn. Þetta er eitthvað sem verður að breyta og þetta er, held ég, að breytast. Þó að það sé dýrt námskeið og harkaleg reynsla vona ég að þjóðin læri af þessu og verði sparsamari og ráðdeildarsamari og að gamlar dyggðir eins og sparsemi og ráðdeildarsemi fái aftur sess í huga þessarar þjóðar. Þá mun okkur vegna vel.

Ég er mjög ánægður með þetta frumvarp og ég ætla að vona að nefndin leiti sannleikans hver sem hann er en finni hann ekki endanlega.